150. löggjafarþing — 118. fundur,  16. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[18:04]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Skoska leiðin, nú þarf ég að rifja mikið upp þegar þetta kemur svona óvænt upp. Mig minnir að hún hafi verið sett upp og samþykkt í Skotlandi 2005. Hún var fyrst og fremst hugsuð til að tengja dreifbýlið við næstu borg með þjónustu, hvort sem um var að ræða heilbrigði, menntun eða menningu eða allt það sem í eðli sínu er svipað því sem við erum að tala um hér.

Hún hafði jákvæð áhrif á innanlandsflug í Skotlandi. Það jókst um 11–12% og niðurgreiðslan hjá Skotum nam um 50% af flugmiðanum. Þetta er eins og ég man helstu stikkorðin varðandi þetta. (Gripið fram í: … íbúar) Já, 270.000. Það getur verið að hv. þingmaður sé með aðra tölu en eftir minni mínu skráðu 250.000–300.000 Skotar sig inn í kerfið. Þannig gátu þeir nýtt sér niðurgreiðsluna en þeir þurftu að vera með búsetu eða lögheimili á svæðum sem falla undir kerfið. Það er gert til að jafna aðstöðu vegna þess að í Skotlandi hafa, svipað og hjá okkur, verið að byggjast upp fleiri þjónustumiðstöðvar eða borgir. Ríkisvaldið hefur raunverulega sett það þannig upp að menn komist á sjúkrahús, í menningu, háskóla eða hvað það er.

Við Íslendingar tökum þetta kannski í aðeins smærri skrefum. Eins og þetta hefur verið sett upp og kynnt byrjum við með eina ferð á hvern núna í haust og síðan myndum við í framhaldinu fjölga á næsta ári.