150. löggjafarþing — 118. fundur,  16. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[18:07]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég viðurkenni að mér finnst flug sem almenningssamgöngur mjög áhugaverð pæling. Ég held að það verði þeim mun auðveldara eftir því sem tækninni fleygir fram og m.a.s. í tiltölulega náinni framtíð. Það er tvímælalaust möguleiki sem við ættum að skoða inni í heildarkerfinu. Á þann hátt finnst mér einmitt líka vanta betri flugsamgönguáætlun um hvaða flugvellir séu í þessu almenningssamgangnakerfi.

Það sem ég hefði helst viljað gagnrýna varðandi skosku leiðina hér á Íslandi var að mig rámar í að í Skotlandi hafi hún í raun aðallega snúist um flugsamgöngur út í ákveðnar eyjar við Skotland. Þar er náttúrlega miklu meiri takmörkun á samgöngum hvað varðar aðgang að vegum þegar ferjurnar auðvelda aðgengi ekkert rosalega. Það er því smámunur þarna á milli sem er kannski ekki vandamál þegar allt kemur til alls.

Varðandi þessa 1,5 milljarða sem notaðir eru í niðurgreiðslurnar myndi ég vilja sjá minna af samþjöppun og meira af uppbyggingu á þjónustu í dreifðari byggðum, a.m.k. í fleiri kjörnum þar sem vegalengdir frá jaðarbyggðum væru styttri. Einn og hálfur milljarður á ári í slíkar framkvæmdir nær ansi langt til að fjármagna áætlun um betri þjónustudreifingu. Vissulega kemur einhver rekstrarkostnaður á móti o.s.frv. en það er líka ávinningur.