Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 118. fundur,  7. júní 2023.

svör ráðherra við fyrirspurnum.

[11:19]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Virðulegi forseti. Af því að hæstv. félagsmálaráðherra er í salnum langar mig að geta þess að þann 23. mars lagði ég ósköp einfalda fyrirspurn fyrir hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra sem er svohljóðandi: Hvers vegna á enginn öryrki eða fulltrúi frá ÖBÍ réttindasamtökum sæti í stýrihópi og sérfræðingateymi ríkisstjórnarinnar um heildarendurskoðun á örorkulífeyriskerfinu?

Nú eru liðnir meira en tveir mánuðir síðan þessi einfalda fyrirspurn var lögð fram. Maður getur skilið það þegar lagðar eru fram fyrirspurnir sem krefjast mikillar gagnavinnu, fyrirspurnir til stofnana o.s.frv., að það dragist eitthvað að svara þeim. En þegar svona einfaldra spurninga er spurt þá finnst mér það bara vera virðingarleysi við ákvæði þingskapalaga, um frest til að svara fyrirspurnum, að geta ekki drattast til að svara þingmönnum hér.

Ég vil því biðja hæstv. forseta um að ýta á eftir og kannski huga sérstaklega að efni fyrirspurnar þegar ýtt er á eftir ráðherrum að gefa svör. Þetta er að mínu viti algerlega óboðlegt.