Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 118. fundur,  7. júní 2023.

breyting á ýmsum lögum til samræmis við verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands.

1156. mál
[11:36]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það sem ég sagði, og nú er ég með það fyrir framan mig og get þá ég ítrekað það, þ.e. ég var að bera saman krónutöluhækkanir og hlutfallslegar hækkanir, eða prósentuhækkanir. Eðli krónutöluhækkana, þ.e. samningar um hámarksfjárhæðir, eins og kom inn í þessa samninga, er þegar starfsfólk á lægri launum fær hlutfallslega, ekki í krónutölu, meiri hækkanir en starfsfólk á hærri launum. Þannig að ég held að það standist skoðun og það er markmið sem hefur verið uppi á borðum við gerð kjarasamninga á undanförnum árum, að hækka laun lægstu hópanna. Ég er sammála því markmiði og vil ítreka það líka. En augljóslega ef við setjum þetta í hlutfallslega kerfið þá breytir það myndinni og það er bara eðli máls samkvæmt þegar þú ert að ræða annars vegar um prósentuhækkanir og krónutöluhækkanir. Það var nú allt og sumt sem ég sagði. Ég rakti líka hverjar prósentuhækkanir hafa verið á undanförnum árum þannig að þingmenn hafi þessa mynd sem ítarlegasta í sinni vinnu.