Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 118. fundur,  7. júní 2023.

breyting á ýmsum lögum til samræmis við verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands.

1156. mál
[11:50]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Svo ég ljúki því sem ég var byrjuð að ræða hér áðan, varðandi t.d. dóminn frá 2006 sem hv. þingmaður vitnaði til, þá er hann auðvitað í öðru lagaumhverfi og þar er staðan sú að Kjaradómur hafði þegar úrskurðað þegar lögin voru sett. Hér hefur launahækkun ekki gengið í gegn því hún er samkvæmt lögunum áætluð 1. júlí. Hér er löggjafinn því að fjalla um ráðstöfun sem á eftir að koma til framkvæmda þannig að þetta er ekki að fullu sambærilegt. Mér finnst mikilvægt að það sé hugað að því að þessi tillaga hér snýst ekki um einhvern einn hóp, hún snýst um öll þau sem undir lögin heyra. Því er það okkar mat að hér sé í raun og veru um að ræða hópinn sem bestra launakjara nýtur hjá ríkinu og þar hefur forseti Hæstaréttar t.d. verið á svipuðum stað og forsætisráðherra og þannig aðstæður eru uppi að þær kalla á það að þau sem einmitt njóta bestu launakjaranna (Forseti hringir.) hjá ríkinu gangi á undan með góðu fordæmi og axli þannig ábyrgð á því að stöðva verðbólguþróun sem getur orðið skaðleg fyrir samfélagið allt. Þetta er hófleg skerðing og ekki hægt að greina, að ég tel og við teljum, að hún rýri á nokkurn hátt virðingu þeirra embætta sem undir heyra, herra forseti.