Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 118. fundur,  7. júní 2023.

undanþága vegna tollfrjáls innflutnings frá Úkraínu.

[12:04]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Herra forseti. Ég verð nú að koma hingað upp í pontu og taka undir orð samherja minna í Viðreisn um þetta mál sem er í raun og veru mjög dapurlegt í mínum huga að skuli ekki koma hér fram. Stríðinu í Úkraínu er ekkert lokið. Stríðið stendur enn yfir. Fólk er enn þá að deyja. Fólk er enn að deyja og við sögðum hér einróma í þessum sal á sínum tíma að við ætluðum að standa með Úkraínu þar til yfir lyki. Öll sem eitt tókum við undir það að standa með fólkinu í Úkraínu, öll sem eitt. Ég hef verið að spyrjast fyrir um þetta mál inni í efnahags- og viðskiptanefnd en ekki fengið þau svör sem ég hef viljað. Sem betur fer er fundur í efnahags- og viðskiptanefnd á morgun og ég mun halda áfram að spyrja um málið, því að það er algerlega ótækt ef við ætlum að láta þetta (Forseti hringir.) falla á milli skips og bryggju. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)