Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 118. fundur,  7. júní 2023.

undanþága vegna tollfrjáls innflutnings frá Úkraínu.

[12:06]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Frú forseti. Ég segi það sama og hér hefur verið sagt: Hversu smá ætlum við að vera? Þegar íslenskir ráðamenn, hæstv. forsætisráðherra, hæstv. utanríkisráðherra, taka í höndina á Selenskí og baða sig í faðmlögum Selenskís þá er verið að ræða þetta, stuðning við úkraínsku þjóðina. Þetta er smátt framlag af okkar hálfu en mjög táknrænt og ég trúi því ekki að menn ætli að láta hér staðar numið, að það sé fjárhagslegur þrýstingur sérhagsmuna sem ráði því hvort við höldum áfram að styðja þjóð í stríði sem stendur vörð um okkar gildi. Það sama er að gerast og gerðist þegar við vorum að beita Rússa refsiaðgerðum hér fyrir einhverjum árum síðan. Það kom þrýstingur frá útgerðinni: Við erum að tapa peningum á þessu, við verðum að hætta. Þá stóð pólitíkin að mestu leyti í lappirnar og við hljótum að geta ætlast til þess hér og nú að það sama gerist. Við hljótum að ætla að styðja við úkraínsku þjóðina með þeim hætti sem við getum þangað til yfir lýkur og stríðinu lýkur. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)