154. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2024.

regluverk almannatrygginga.

[10:46]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Ég vil taka það fram að það er hverfandi lítill partur af þessum 80% sem er að fá skerðingarnar vegna þess að þau hafi áunnið sér einhverjar krónur í tekjur, hverfandi. Stærsti hlutinn er vegna lífeyrissjóða og þess vegna er spurningin líka þessi: Hvernig stendur á því, miðað við það að við getum ekki einu sinni horft fyrir horn öðruvísi en að stóri bróðir fylgist með okkur, þetta fátæka fólk getur ekki fengið 50.000 kr. öðruvísi en að búið sé að skattleggja og skerða það um 45% — en í rauninni virðist í þessu tilviki ekki vera neitt samtal á milli lífeyrissjóðsins annars vegar, Tryggingastofnunar hins vegar og svo skattyfirvalda. Okkur er öllum í lófa lagið að koma kerfinu þannig fyrir að þau séu ekki bara stundum að tala saman þegar það hentar heldur alltaf að tala saman. Í þessu tilviki þá ætla ég að minna hæstv. ráðherra á það að 11 milljarða kr. launahækkun til öryrkja sem átti að koma til framkvæmda nú á þessu ári hefur verið frestað þangað til í september á næsta ári því að þessi þjóðfélagshópur, eins og kemur fram í fjármálaáætlun, á að greiða fyrir kjarapakka og þá kjarasamninga sem voru gerðir núna á dögunum.