154. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2024.

Nám í hamfarafræðum á háskólastigi.

[11:49]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðherra og þingmönnum fyrir þátttökuna í þessari umræðu. Það var mér afar kært að fá að heyra þeirra viðbrögð við þessari hugmynd og það er alveg hárrétt sem hérna hefur komið fram, og það var haft samband við mig í morgun um það, að auðvitað er þetta nám að einhverju leyti nú þegar til á Bifröst og öðrum háskólum, enda mun námið byggja á því að samræma þekkingu þessara fjölbreyttu sviða sem hér hafa verið nefnd í þessu námi ef af verður. Ég heyri það á þingmönnum að þeir telja að Ísland sé tilvalinn kostur og hér kom fram tillaga um að opna hér hamfaraskóla Sameinuðu þjóðanna, sem var afar áhugavert. Þau orð komu líka fram að hér væri um lýðheilsumál að ræða og hv. þm. Gísli Rafn Ólafsson minnti á þekkingu og reynslu hér á landi sem hann og fleiri búa yfir og að Ísland gæti þannig verið í lykilhlutverki ef slíku námi yrði komið á fót hér á landi. Ég minni líka á að hér kom fram að það væri frumskylda ríkisins að vernda borgarana. Við erum að reyna að gera það eins vel og hægt er. Hér er minnst á Grindavík. Það er auðvitað sorglegt upp á það að horfa. Sjálfur var ég 17 ára þegar gosið í Vestmannaeyjum fór af stað og ég vann síðan þar sem stjórnandi alveg frá því að hreinsun hófst og þangað til að því starfi lauk 1978, að mestu, þannig að öll búum við yfir einhvers konar reynslu og þekkingu á þessum sviðum því að hvort sem við viljum eða viljum ekki þá erum við beint og óbeint þátttakendur í þeirri náttúruvá sem hér hefur verið til staðar, er og mun verða. — Ég þakka kærlega fyrir þessa umræðu.