154. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2024.

Nám í hamfarafræðum á háskólastigi.

[11:51]
Horfa

háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Mig langar að þakka hv. þm. Ásmundi Friðrikssyni kærlega fyrir þessa umræðu hér í þinginu. Þegar við ræðum um áskoranir, samfélagslegar áskoranir eins og náttúruvá og aðrar hamfarir, þá er mikilvægt að við ræðum líka þekkingu og menntun af því að það skiptir ekki síst máli og eiginlega höfuðmáli að við sem þjóð séum að efla þekkingu okkar og nýta þau einstöku tækifæri sem felast í því að geta leitt þessar greinar saman. Við erum með viðbúnað á heimsmælikvarða sem oft hefur vakið athygli út fyrir landsteinana. Eins og hér hefur verið komið inn á er framlag Íslands til þróunaraðstoðar m.a. í Jafnréttisskóla Sameinuðu þjóðanna og Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna sem utanríkisráðuneytið hefur haft veg og vanda af með góðum árangri um árabil. Útflutningsvara tengd hamfarafræðum gæti verið þekking sem myndi laða að alþjóðlega nemendur í háskólanám hér á landi og vísindastarf sem myndi vekja athygli alþjóðlega. Við sjáum það að námið sem ég nefndi hér í fyrri ræðu minni sem er við Háskólann á Bifröst, í almanna- og öryggisfræðum, var búið til með sérfræðingum bæði innan lands og alþjóðlega. Með samstarfi og mögulegri sameiningu Bifrastar við Háskólann á Akureyri væri hægt að ýta þessu enn frekar úr vör með auknu samstarfi við lögreglufræðina sem og rannsóknir á norðurslóðum og fleira sem líka er sérstaða okkar.

Varðandi það að fá skólagjöld og fjármuni frá alþjóðlegum nemendum sem myndi ýta undir það að þetta væri útflutningsvara, eins og fyrirspyrjandi nefnir, þá hafa Norðurlöndin öll farið þá leið að leyfa skólagjöld fyrir nemendur utan Evrópu. Það er eitthvað sem við erum að skoða ásamt breyttu reiknilíkani háskólanna, þ.e. hvernig við högum leyfum um skólagjöld. (Forseti hringir.) Það er eitthvað sem gæti komið til álita nú þegar við klárum fjármögnunarlíkan háskólastigsins.

Ég vil þakka framsögumanni aftur kærlega fyrir og þeim þingmönnum sem hafa tekið til máls og hlakka til að vinna þetta áfram.