131. löggjafarþing — 119. fundur,  29. apr. 2005.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[14:13]

Sólveig Pétursdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þori að fullyrða að við stöndum okkur mjög vel á Íslandi í samanburði við önnur ríki í mannréttindamálum. Við tökum þátt í starfi Sameinuðu þjóðanna í mannréttindamálum, við skilum reglulega skýrslum um framkvæmd mannréttindasamninga sem við erum aðilar að.

Hv. þingmaður nefndi sérstaklega mansalsumræðuna áðan. Ef við lítum aðeins á hvað hefur verið gert hér á landi í þeim efnum þá er það ábyggilega meira en gert hefur verið í flestum ríkjum. Hún nefndi sérstaklega ákvæði í hegningarlögum. Það er sérstakt ákvæði sem gerir mansal refsivert í íslenskum hegningarlögum. Við erum líka aðilar að Palermo-samningnum sem er mjög mikilvægur í því að vinna gegn skipulagðri glæpastarfsemi, sem mansalið einmitt er, og það skiptir mjög miklu máli að hafa samhæfða lögfræðilega skilgreiningu á þessum glæp þannig að hægt sé að berjast gegn honum.

Við tókum þátt í norrænu samstarfi sem fjallaði sérstaklega um baráttu gegn mansali. Gefnar voru út tvær skýrslur um þessi mál, bæði í sambandi við vændi og mansal sem er auðvitað oft tengt saman. Í seinni skýrslunni var líka komið með margvíslegar tillögur til úrbóta sem unnið hefur verið að. Ég vil vísa þessari umræðu á bug og endurtaka að ég tel að við stöndum okkur mjög vel í þessum málum og að Ísland sé í hávegum haft sem lýðræðisríki þar sem mannréttinda er gætt í hvívetna.