132. löggjafarþing — 119. fundur,  1. júní 2006.

viðbrögð í kjölfar upplýsinga um símhleranir.

[10:32]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég tek til máls um störf þingsins til að beina spurningu til forseta þingsins, hafði reyndar gert ráð fyrir því að aðalforseti þingsins sæti á forsetastóli en það breytir svo sem ekki öllu. Ég beini spurningu minni að sjálfsögðu til forsetaembættisins. Spurningin er sú hvort forseti þingsins hyggist ekki kalla fulltrúa þingflokka saman til að ræða þau mál sem upp komu í tengslum við fyrirlestur sem Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur hélt nýverið þar sem hann leiddi í ljós m.a. að hér hefðu á árunum 1949–1968 verið stundaðar nokkuð umfangsmiklar hleranir á símum bæði samtaka, einstaklinga og ekki síst þingmanna. Þarna er um að ræða þekkt tilvik og í hvert eitt sinn eru það fjölmargir símar sem eru hleraðir.

Nú sé ég að það er komin fram þingsályktunartillaga frá forsætisráðherra um að taka á því með hvaða hætti aðgangur verði opnaður að ýmsum skjölum sem varða öryggismál þjóðarinnar, bæði hin ytri og innri öryggismál, og það er góðra gjalda vert. Eftir sem áður finnst mér standa eftir hvernig við ætlum að taka á þeim alvarlegu upplýsingum sem komu fram í erindi Guðna Th. Jóhannessonar.

Forseti þingsins, Sólveig Pétursdóttir, sagði í viðtali við Morgunblaðið að hún teldi að mörg úrræði væru til til að rannsaka símhleranir. Í ljósi þeirra ummæla forsetans hefði ég talið eðlilegt að forseti beitti sér fyrir því að fulltrúar þingflokka hittust, færu yfir þetta og kæmust að sameiginlegri niðurstöðu um með hvaða hætti við mundum taka á þessum málum. Eins og ég sagði er hér um alvarleg mál að ræða. Tugir af símum voru hleraðir og í mörgum tilvikum var um alþingismenn að ræða. Þess vegna beini ég þessari fyrirspurn til forseta.