132. löggjafarþing — 119. fundur,  1. júní 2006.

viðbrögð í kjölfar upplýsinga um símhleranir.

[10:44]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Kjarni málsins er sá að rannsókn á þessu máli, rannsókn á þeim grófu símhlerunum sem virðast hafa átt sér stað á þessum tíma samkvæmt erindi Guðna Th. Jóhannessonar, á að sjálfsögðu að vera á forræði Alþingis. Sú rannsókn og skipan í þá rannsóknarnefnd á að vera á forræði Alþingis en ekki framkvæmdarvaldsins. Um það snýst þetta mál og því nær tillaga hæstv. forsætisráðherra svo skammt að hún dugir varla til. Þingið á að sjálfsögðu að koma að málinu og þar á að leiða til lykta um hverja var njósnað, hvernig voru upplýsingarnar notaðar, hvaða þingmenn var njósnað um, hvernig var brotið á fjölmiðlum, þingmönnum o.s.frv.

Vísbendingar eru um það í þessu erindi að þar hafi átt sér stað ákaflega gróf brot á friðhelgi einkalífs þeirra manna sem þar um ræðir og er málið augljóslega angi af því pólitíska ofstæki sem sjálfstæðismenn ráku í landinu gagnvart vinstri mönnum á þessum tíma áratugum saman. Rannsóknin á því að sjálfsögðu að vera á forræði Alþingis en ekki framkvæmdarvaldsins eins og hér er lagt til. Þannig á að leiða málið til lykta og tillaga forsætisráðherra dregur úr alvarleika og umfangi málsins eins og hún er sett fram þar sem um er að ræða starfsemi sem virðist hafa verið sett fram í þeim pólitíska tilgangi að klekkja á andstæðingum valdhafa á þeim tíma.

Ef vísbendingar og upplýsingar í erindinu eru réttar er um að ræða njósnir á pólitískum andstæðingum í þeim tilgangi að klekkja á þeim og rannsókn á þessu máli og þessum málum öllum á að sjálfsögðu að vera á forræði Alþingis en ekki framkvæmdarvaldsins eins og hér er lagt til. Tillaga hæstv. forsætisráðherra gengur því of skammt og þess vegna er sú ósk sem fram er komin, um að formenn þingflokkanna skipi slíka nefnd, sjálfsögð. Ástæða er til að skora á hæstv. forseta að verða við þeirri ósk.