132. löggjafarþing — 119. fundur,  1. júní 2006.

landshlutaverkefni í skógrækt.

555. mál
[15:22]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Virðulegi forseti. Það frumvarp til laga sem hér er verið að fjalla um við 2. umr., landshlutaverkefni í skógrækt, en hv. þm. Drífa Hjartardóttir, formaður landbúnaðarnefndar, hefur gert grein fyrir störfum landbúnaðarnefndar að þessu máli og nefndaráliti hennar, er í heild sinni til mikilla bóta. Það voru komin allmörg lög, eins og hv. formaður landbúnaðarnefndar gerði grein fyrir, sem lutu að landshlutabundnum verkefnum í skógrækt vítt og breitt um landið sem var fyllilega ástæða til að taka saman og setja í eina heildstæða löggjöf.

Ég tek undir orð hv. þm. Drífu Hjartardóttur um að eðlilegast hefði verið að taka öll skógræktarmálin fyrir í heild sinni og búa til heildstæðan lagabálk um þau málefni þar sem landshlutaverkefni í skógrækt hefði verið hluti af heildstæðri löggjöf um skógrækt. Sú leið var ekki valin heldur tekinn þessi þáttur þeirra en ég tek alveg undir það með hv. formanni landbúnaðarnefndar að það útilokar ekki í sjálfu sér að við getum tekið þennan lagabálk fyrir í heild sinni síðar og er jafnnauðsynlegt sem fyrr.

Ég stend því að þessu nefndaráliti sem hér hefur verið kynnt og ítreka að þessi vinna í heild sinni er til mikilla bóta hvað varðar þennan málaflokk. Ég ritaði þó undir nefndarálitið með fyrirvara og fyrirvarar mínir lúta að nokkrum ákveðnum atriðum. Í fyrsta lagi að benda á að þessi lög lúta að þátttöku ríkisins með fjármagni í uppbyggingu skilgreindrar skógræktar á Íslandi. Þarna er ríkið að verja töluverðu fé eins og lögin kveða á um og skógarbændur eða þeir sem sitja á lögbýlum geta sótt um fjármagn á grundvelli þessara laga til skógræktar á jörðum sínum.

Þetta átak fór fyrst í gang fyrir nokkrum árum til að auðga landið skógi og til að taka upp svokallaða nytjaskógrækt en einnig var verið að setja þetta verkefni í gang til þess að gefa bændum kost á ákveðnum búháttabreytingum, þ.e. að hverfa frá einni búskaparaðferð til annarrar, taka upp skógrækt að hluta eða öllu leyti í búskap sínum. Stór hluti af hinum pólitíska tilgangi með þessum fjárveitingum var að treysta atvinnu og byggð á þessum jörðum og í þeim héruðum sem um var að ræða. Um þessa nálgun, að treysta byggð í sveitum, gefa bændum og fólki á bújörðum kost á stuðningi til þessara verkefna sem lutu að skógrækt samkvæmt samningi sem gera átti að þar um, var líka góð pólitísk sátt.

Nú hefur þetta hins vegar flotið nokkuð út þannig að nú er reynslan orðin sú að það eru mun fleiri sem bæði sækja um og virðast fá fjármagn til að rækta skóg á jörðum sem þeir hafa til ráðstöfunar en þeir sem eingöngu búa á þeim. Þá finnst mér það orka orðið nokkurs tvímælis að ríkið sé að koma þar inn með fjármagn. Það er a.m.k. önnur pólitísk forsenda en áður var. Skógrækt er góð þar sem hún hentar og um hana er sátt óháð því hver á landið, en að ríkið sé að setja í hana verulegt fjármagn sem aðrir aðilar eiga aðgang að án þess að búa þar finnst mér orka tvímælis. Ég vil a.m.k. að það sé ljóst að það er skoðun mín að þeir sem búa á jörðunum, eru fullir búsetulegir þátttakendur og eiga þar sína fjölskyldu búandi á jörðunum, eigi að öðru jöfnu að hafa forgang til þessa fjármagns.

Það ber æ oftar við að fjársterkir aðilar sem kaupa jarðir eða jarðarbúta í sveitum eigi jafnvel greiðari aðgang að fjármagninu í heild sinni vegna þess að það krefst mótframlags að fá fjármagn frá ríkinu til þessara verkefna og því meira fé sem menn hafa umleikis til ráðstöfunar því meira fjármagn geta þeir fengið frá ríkinu sem mótframlag. Þeir sem kaupa jarðir og hafa mikið fjármagn milli handanna geta því með þeim hætti haft meiri forgang að því fjármagni sem ríkið veitir til þessara verkefna. Þetta er ein af athugasemdunum sem ég geri. Ég tel að þarna hefði átt að kanna að gera mörkin á milli skýrari en þau eru í lögunum þannig að þetta höfðaði fyrst og fremst til bænda sem byggju á jörðum sínum.

Hitt sem ég vildi líka leggja áherslu á er að lögin forgangsraða á vissan hátt eftir trjáplöntum, þ.e. það hefur verið og enn þá er það svo að svokölluð viðarskógrækt nýtur forgangs, ég tala ekki nú um hvað varðar skattalögin. Vissulega eru möguleikar á útivistarskógrækt og birkiskógrækt að koma sterkar inn í lögin en áður var en þegar verið er að tala um þá sem planta til viðarræktar þá njóta þeir aðilar nokkurs forgangs hvað þetta varðar.

Síðan vildi ég líka nefna að bent hefur verið á nauðsyn þess að það land sem tekið er til skógræktar sé í auknum mæli skipulagt, að skipulagslegar kvaðir séu á því, og á því er verið að taka nokkuð með lögum sem eru að fara í gegnum þingið um matsáætlanir á einstökum slíkum verkefnum. Það er því til bóta.

Ég vil svo vekja athygli á því í lokin, frú forseti, þó að það snerti ekki beint þessi lög, það snertir náttúruverndarlögin sem ég teldi mjög brýnt að taka á, þ.e. réttindi fólks til að fara um land en í 14. gr. náttúruverndarlaganna stendur, með leyfi forseta:

„För um ræktað land og dvöl þar er háð samþykki eiganda þess eða rétthafa. Sama gildir um skógræktarsvæði í byggð sem ekki eru í eigu eða umsjá ríkis eða sveitarfélaga, önnur en náttúrulega birkiskóga og kjarr. Sé skógrækt styrkt með opinberu fé skal kveða svo á í samningi við eiganda eða rétthafa lands að hann tryggi almenningi með reglum sem hann setur frjálsa för um landið eftir að fyrstu stigum skógræktar er lokið.“

Bent hefur verið á að hér sé lagaleg óvissa um rétt fólks til þess að fara um land þegar þar er hafin skógrækt eða annað. Ég heyri æ fleiri tilvik sem eru á þann veg að þegar jarðir og lönd eru keypt upp og gjarnan ekki búið á þeim séu þeir eigendur hvað harðastir í því að loka þær jarðir af til umferðar. Ég tel að setja þurfi í lög mun skýrari ákvæði, hvort heldur það er í náttúruverndarlögum, skógræktarlögum eða lögum um landshlutabundin verkefni til skógræktar, sem kveða á um rétt fólks til að fara um land. Bændur sem búa á jörðum sínum hafa yfirleitt verið mjög frjálslegir hvað það varðar en eftir að jarðir hafa farið í hendur manna sem ekki búa á þeim lenda menn æ oftar í því að þær eru lokaðar að stórum hluta fyrir almennri umferð og það er slæm þróun.

Frú forseti. Ég styð fullkomlega þetta lagafrumvarp eins og það kemur hér fyrir og tel að það sé mikill áfangi og góður í því að setja þessi verkefni, landshlutabundin skógræktarverkefni, í eina heildstæða löggjöf.