135. löggjafarþing — 119. fundur,  9. sept. 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[23:23]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra hefði að mínu mati að ósekju mátt biðja um orðið og svara hér í ræðu. Hann hefur ekki plagað okkur svo mikið með nærveru sinni hér í dag og ég bjóst því kannski við ítarlegri svörum en þeim sem hægt er að veita í tveggja mínútna andsvari. Það væri fróðlegt að vita hvort ráðherrann hyggst ekki kvitta fyrir umræðuna hér á eftir með ræðu þar sem hann gæti þá kannski farið yfir eitthvað af sem rætt hefur verið í dag, þær spurningar sem hefur verið varpað fram. Þannig er að samviskusamir ráðherrar sitja hérna í salnum og punkta niður hjá sér spurningar og athugasemdir sem þeir telja ástæðu til að bregðast við en það virðist ekki vera ætlun þessa ráðherra að temja sér það verklag, hann er kannski uppteknari við eitthvað annað mikilvægara að eigin mati en að sinna umræðunni með þeim hætti og koma svo hér með skeytasendingar af því tagi sem hann hafði í þessu stutta andsvari.

Þegar heilbrigðislögin voru sett á sínum tíma gagnrýndum við einmitt ýmislegt sem fól í sér að okkar mati allt of rúmar valdheimildir til ráðherra. Við greiddum atkvæði gegn slíkum ákvæðum í því frumvarpi þó að við veldum að styðja það við endanlega afgreiðslu þess af því að í því var líka margt mjög mikilvægt og er að sjálfsögðu í þeim lögum. Þetta hefur verið margútskýrt hér.

Hins vegar er eitt athyglisvert, að upp að einhverju vissu marki virðist hæstv. ráðherra vera að reyna að breiða yfir boðskap formanns síns úr Valhöll frá því í haust. Kannski er það áfram tillitssemin við samstarfsflokkinn sem þolir ekki stærri skammt í bili enda hreyfing ungliðanna hrokkin fyrir borð í málinu, að það verði að hafa þetta allt í silkiumbúðum núna hérna í gegnum umræðuna vegna aumingja Samfylkingarinnar. Það læðist dálítið að manni sá grunur. Hér virðist sem sagt ekki standa til að veita neinar upplýsingar um það sem þó er skjalfest að er áformað og kallað er „að hafa mikið í pípunum“, að verulegar breytingar séu fram undan í heilbrigðiskerfinu og annað í þeim dúr. Eða voru þetta bara einhver ómagaorð hjá formanni Sjálfstæðisflokksins, (Forseti hringir.) sem heilbrigðisráðherra tekur ekkert mark á?