138. löggjafarþing — 119. fundur,  7. maí 2010.

þingsköp Alþingis.

539. mál
[16:33]
Horfa

Flm. (Valgerður Bjarnadóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmönnum Siv Friðleifsdóttur og Pétri H. Blöndal fyrir undirtektirnar. Ég er þeim sammála um að þetta er einungis tímabundin lausn. Ég er þeim hjartanlega sammála um að það þarf að koma þessu ákvæði inn í stjórnarskrána og væntanleg yrði það gert í gegnum stjórnlagaþing eins og hv. þm. Siv Friðleifsdóttir nefndi.

Frumvarpið er náttúrlega líka þannig að hafa ber í huga að þetta er val þeirra sem eru ráðherrar. Þetta er ekki skylda, þetta er val. Hins vegar er nokkuð ljóst að ef ákvæði er í stjórnarskrá þá er það ekki lengur val heldur skýrt á kveðið um að þannig skuli það vera. Ég er eins og ég hef sagt hjartanlega sammála því að þannig eigi það að vera.

Auðvitað fylgja þessu praktísk vandamál. Ég get út af fyrir sig lýst mig samþykka því að það er allt í lagi að fækka hér þingmönnum — ég er hjartanlega sammála Pétri H. Blöndal um það — en væntanlega gerist það nú ekki um leið. Ég held að við eigum ekki að setja praktísk vandamál af því tagi fyrir okkur. Við þurfum að leysa þessi vandamál vegna þess að það skiptir máli. Verði þetta svo held ég einnig að hlutverk ráðherranna mundi breytast svolítið. Það væri ekki þessi mikli munur sem núna er á ríkisstjórn og þingi, menn eru alltaf í stjórn eða stjórnarandstöðu. Ég held að það gæti orðið þannig að ráðherrarnir litu meira á sig sem embættismenn okkar allra í stað þess að standa í þeim skotgrafahernaði sem vissulega ríkir hér.

Ég er sammála hv. þm. Siv Friðleifsdóttur um að þetta þurfi að ræða ítarlega og athuga hvort styrkja þurfi stöðu stjórnarandstöðu eitthvað í leiðinni. Auðvitað er munurinn á stjórn og stjórnarandstöðu eða völdum Alþingis náttúrlega fyrst og síðast fólginn í atkvæðavæginu og það mundi ekki breytast með þessu.