139. löggjafarþing — 119. fundur,  5. maí 2011.

embætti sérstaks saksóknara.

754. mál
[21:33]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi um breyting á lögum um embætti sérstaks saksóknara, nr. 135/2008. Í frumvarpinu er lagt til að auk þeirra verkefna sem embætti sérstaks saksóknara fer með í dag verði embættinu falin rannsókn þeirra mála sem í dag eru rannsökuð hjá efnahagsbrotadeild ríkissaksóknara. Með þessu er stigið fyrsta skrefið til að sameina undir einum hatti rannsókn og saksókn svonefndra efnahagsbrota.

Efnahagsbrotadeild ríkissaksóknara annast í dag rannsókn og saksókn vegna alvarlegra afbrota á sviði fjármála og viðskipta. Hafa brot þessi verið nefnd einu nafni skatta- og efnahagsbrot en til þeirra teljast meðal annars alvarleg auðgunarbrot, brot sem lúta að löggjöf um tekjuöflun hins opinbera, brot er varða gjaldeyrismál, verðlags- og samkeppnismál, verðbréfaviðskipti, umhverfisbrot, stjórn fiskveiða og önnur brot sem eðli máls samkvæmt teljast til efnahagsbrota. Hjá embætti sérstaks saksóknara, sem sett var á fót í kjölfar hins svonefnda bankahruns, fer einnig fram rannsókn og saksókn viðamikilla efnahagsbrota en sú starfsemi er takmörkuð við refsiverða háttsemi sem tengst hefur starfsemi fjármálafyrirtækja.

Mikil samlegð er með þeirri starfsemi sem fram fer hjá efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra og embætti sérstaks saksóknara og hjá báðum embættum hefur byggst upp mikil sérþekking og sérhæfing á þessu sviði. Þykir því einboðið að leggja saman starfskrafta þessara tveggja rannsóknareininga í eina sterka rannsóknareiningu í stað þess að dreifa kröftunum á tvo staði. Rannsókn og saksókn skatta- og efnahagsbrota fer þó ekki eingöngu fram hjá þessum tveimur embættum. Þeim er einnig sinnt hjá öðrum stofnunum eins og lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu, skattrannsóknarstjóra, tollstjóra, Fjármálaeftirlitinu, Samkeppniseftirlitinu og ríkissaksóknara. Hefur komið fram gagnrýni á þessa skipan mála sem þykir flókin, ógegnsæ og óhagkvæm og einnig þykir hætta á tvíverknaði og jafnvel sakarspjöllum fyrir grunaða, auk þess sem almannahagsmunum sé stefnt í hættu. Oft og tíðum fer fram hjá einni af þessum stofnunum rannsókn á afmörkuðum þáttum í háttsemi lögaðila og einstaklinga sem er í raun hluti af mun víðtækari brotastarfsemi. Jafnvel eru teknar skýrslur af sömu einstaklingum vegna sömu háttsemi með skömmu millibili. Nauðsynlegt er að skoðað verði hvernig rannsókn og saksókn þessa málaflokks er almennt háttað og fá þannig heildarsýn yfir málaflokkinn. Er því í frumvarpi þessu lagt til að sett verði á fót nefnd sérfróðra manna til að endurskoða skipulag og tilhögun rannsókna og saksóknar í efnahagsbrotamálum og gera tillögur að heildarskipulagi slíkra rannsókna innan einnar stofnunar í þeim tilgangi að gera þær skilvirkari, markvissari og tryggja sem besta nýtingu fjármuna sem ætlaðir eru í þessu skyni. Verði slík nefnd sett á fót í samráði við viðkomandi ráðuneyti en mismunandi ráðuneyti fara með málefni þeirra stofnana sem standa að rannsókn efnahagsbrotamála.

Embætti sérstaks saksóknara var upphaflega ákvarðaður tiltekinn starfstími og tek ég fram að eftir 1. janúar 2011 hefði ráðherra getað tekið þá ákvörðun að leggja embættið niður og fela verkefni þess viðkomandi lögregluembætti eða ákæranda eftir almennum ákvæðum lögreglulaga og laga um meðferð sakamála.

Vegna þeirra breytinga sem hér eru lagðar til, að færa embættinu enn frekari verkefni sem og að skoða hvernig efnahagsrannsóknum verði best fyrir komið í framtíðinni, þykir rétt að leggja til að starfstími embættisins verði framlengdur til 1. janúar árið 2013. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að embættismönnum og öðrum starfsmönnum efnahagsbrotadeildar verði boðið starf hjá embætti sérstaks saksóknara. Þeim sem ekki þiggja slíkt starf skuli boðið annað starf innan lögreglunnar.

Ég legg áherslu á að þær breytingar sem hér er verið að leggja til, bæði til skamms tíma og lengra fram í tímann, eru sprottnar af hugmyndum úr þessum embættum sjálfum. Það er víðtækur vilji innan kerfisins almennt til að ráðast í þessar breytingar, bæði hvað varðar sameiningu þessara tveggja embætta sem frumvarpið byggist á en einnig er vilji til að samhæfa rannsóknirnar fram í tímann í svipuðum dúr og Norðmenn hafa gert hjá sér, undir regnhlíf sem kallast „økokrim“. Það er verkefni sem við munum vinna að á komandi mánuðum en eins og getið er um í þeim orðum sem ég hef haft um þetta þá byggist það á víðtæku samráði innan stjórnsýslunnar og á milli þeirra ráðuneyta sem hlut eiga að máli.

Ég hef gert grein fyrir helstu atriðum frumvarpsins og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjarnefndar þar sem það mun fá góða skoðun og síðan til 2. umr.