140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

störf þingsins.

[10:43]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að fagna orðum hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur og ég lít svo á að hér séum við komin með samstöðu í þinginu um að skoða þetta mál. Ég lít svo á að við séum núna komin á þann stað að við fáum til dæmis niðurstöðu í þær fjölmörgu fyrirspurnir sem ég hef borið fram skriflega og ekki fengið svör við. Ég fagna því að hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir taki á málinu með þessum hætti. Við skulum ekki karpa um fortíðina í þessu. Aðalatriðið er að fá niðurstöðu í málið.

Það er kominn enn einn vinkill á málið sem kemur fram á forsíðu Fréttablaðsins. Þar kemur fram að á því tæpa ári sem SpKef starfaði, en það er banki sem hæstv. fyrrverandi fjármálaráðherra Steingrímur J. Sigfússon stofnaði og hafði einhverra hluta vegna ekki bolmagn til að starfa nema í örfáa mánuði, safnaði hann miklum skuldum við Seðlabanka Íslands. Þetta hefur mér vitanlega aldrei komið fram áður.

Þetta hefur verið afskaplega erfitt mál að því leytinu til að það hefur verið erfitt að sinna eftirlitshlutverki þingsins vegna þess að við höfum ekki fengið svör við spurningum. Nú erum við hins vegar búin að fá hv. stjórnarþingmenn í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd til liðs við okkur sem ætla, miðað við orð hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur, að fara í þetta mál. Ég treysti þeim orðum og treysti hv. nefnd til að skoða málið því til þess var hún stofnuð. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd var stofnuð til að skoða nákvæmlega mál eins og þetta sem svo sannarlega hefur ekki verið upplýst. Svör hæstv. ráðherra Steingríms J. Sigfússonar benda til þess að hann hafi ekki mjög góða samvisku í þessu máli.