140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[11:12]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Við tökum að nýju við að ræða frumvarp hæstv. fjármálaráðherra um fjármögnun Vaðlaheiðarganga. Þetta mál var, eins og hv. þingmenn muna, töluvert umdeilt og áttu sér stað mjög harðar umræður fyrir 10–12 dögum eða svo þegar 2. umr. hófst og var henni ekki lokið þá. Gert var hlé á 2. umr. fram til dagsins í dag af ástæðum sem þingmenn þekkja.

Ég lagði á það áherslu í máli mínu fyrir hléið á þessari umræðu að ég teldi að þarna væri um að ræða mjög gallaða leið við að koma til framkvæmda framkvæmd sem er að sönnu samgöngubót og jákvæð fyrir þær byggðir sem næst standa og hefur ýmsa kosti eins og samgönguframkvæmdir hafa jafnan, en það sem ég og fleiri höfum gert athugasemdir við er í fyrsta lagi að farið var af stað með þetta verkefni á þeirri forsendu að þarna væri um að ræða einkaframkvæmd sem ríkið þyrfti ekki að koma að. Smám saman hefur þáttur ríkisins aukist skref fyrir skref og nú er svo komið að gert er ráð fyrir að þingið veiti ríkinu heimild til að ábyrgjast lántökur upp á sennilega hátt í 9 milljarða kr. vegna þessarar framkvæmdar auk þess sem ríkið er meirihlutaeigandi í félaginu sem ætlar að gera göngin.

Við það verður auðvitað ákveðin eðlisbreyting á málinu. Þarna er ekki um að ræða einkaframkvæmd sem kemur ríkissjóði ekki við og sem hægt er að taka út fyrir allt sem heitir ríkisrekstur, samgönguáætlun og annað þess háttar heldur er þetta orðið nokkuð sem við þurfum að hafa áhyggjur af vegna þess að sú fjárhagslega skuldbinding sem ríkið tekur á sig með þessu getur orðið býsna mikil. Þá er eðlilegt að skoða þetta í samhengi við aðrar samgönguframkvæmdir í landinu. Ég teldi eðlilegt að þetta verkefni væri tekið inn í samhengi samgönguáætlunar og væri þá skoðað með hliðsjón af öðrum þeim stórverkefnum sem við erum að fara að ráðast í, sjálfsagt að einhverju leyti fyrir lánsfé líka, ég geri ráð fyrir því. Ef það er svo að ríkið muni standa undir öllum öðrum samgönguframkvæmdum með sjálfsaflafé bið ég menn að upplýsa það.

Við hljótum að sjá að miðað við þær eðlisbreytingar sem orðið hafa á gangi málsins er óeðlilegt að slíta þetta úr samhengi samgönguáætlunar. Ég hef lýst því yfir í þessum umræðum að það að unnt verði að innheimta notendagjöld eða veggjöld vegna þessara ganga gefi auðvitað tilefni til þess að taka þetta með jákvæðari hætti í forgangsröðunina í samgönguáætlun. Það geta verið röksemdir fyrir því að fara fyrr í verkefnið innan samgönguáætlunar en ella ef veggjöld verða innheimt því að ljóst er að ef notaðir væru aðrir mælikvarðar samgönguáætlunar mundi verkefnið lenda verulega aftarlega miðað við þær forsendur sem lagðar eru til grundvallar þegar tekin er afstaða til annarra stórra samgönguframkvæmda á samgönguáætlun. En það að gert er ráð fyrir að veggjöld séu innheimt gefur okkur auðvitað tilefni til að líta á verkefnið í samhengi samgönguáætlunar með jákvæðari huga en ella. Ég veit ekki hver niðurstaðan úr því yrði en mér finnst hins vegar með öllu óeðlilegt að taka á málinu með þeim hætti sem hér er lagt til að verði gert og leggst eindregið gegn því. Það sama hygg ég að eigi við um marga þingmenn. Við vitum að andstaða er við þetta frumvarp úr mörgum flokkum, eins og kom skýrt fram í umræðunni hér. Þann 1. júní, að mig minnir, lýstu þingmenn úr öllum stjórnmálaflokkum sem sæti eiga á Alþingi efasemdum eða beinni andstöðu við þetta frumvarp. Ég hef ekki séð að þetta mál hafi með nokkrum hætti batnað á þeim 12 dögum sem liðnir eru síðan við ræddum það síðast þannig að ég reikna með því að sú andstaða sem fram kom af hálfu þingmanna muni enn þá vera fyrir hendi þegar kemur til atkvæðagreiðslu um málið, hvenær sem það verður. Auðvitað hefur verið óskað eftir því að málið gangi að nýju til fjárlaganefndar milli 2. og 3. umr. og er hugsanlegt að einhverjar breytingar verði á því þar, það verður bara að koma í ljós. Ég á ekki sæti í hv. fjárlaganefnd en einstakir nefndarmenn í fjárlaganefnd hafa í umræðum viðrað hugmyndir um breytta aðkomu ríkisins eða eitthvað þess háttar, einhvern snúning sem gæti með einhverjum hætti breytt málinu.

Ég legg líka áherslu á, eins og ég hef gert frá upphafi þessa máls, að mér finnst óeðlilegt að þetta mál sé tekið í gegnum þingið án aðkomu hv. umhverfis- og samgöngunefndar því að hér er óneitanlega um að ræða eitt stærsta samgönguverkefni næstu ára ef af verður og mér finnst fráleitt að sú nefnd þingsins sem fæst við samgöngumál skuli ekki höfð með í ráðum um málið. Þetta tiltekna frumvarp snýst auðvitað um ríkisábyrgð og það er ekkert óeðlilegt að það fái málsmeðferð í fjárlaganefnd eins og slík frumvörp eiga að gera, sérstaklega eftir að viðurkennt var að það þyrfti frumvarp um ríkisábyrgð, breytingu á lögum um ríkisábyrgðir til að koma þessu máli í framkvæmd. Það var ekki það sem var uppi á teningnum þegar fjáraukalög voru samþykkt í nóvember eða fjárlög í desember. Þá minntist enginn af stuðningsmönnum málsins á að það væri einhver nauðsyn að setja sérstök lög til að breyta lögum um ríkisábyrgðir til að koma þessu máli í gegn. Ég skildi hv. þingmenn þannig við afgreiðslu fjáraukalaga og síðan fjárlaga í desember að þetta væri allt klappað og klárt ef heimild fengist í fjáraukalögum og síðan fjárlögum. Svo áttuðu menn sig á því að það var, eins og bent var á á þeim tíma, lagalegur óskapnaður og engin forsenda fyrir því að beita ríkisábyrgð fyrir þessum lánum nema breyta lögum um ríkisábyrgðir eins og hér er lagt til með það að markmiði að taka úr sambandi ákveðna þætti þeirrar löggjafar sem settir voru inn þar af varfærnissjónarmiðum til að vernda hagsmuni ríkissjóðs, bara þannig að menn hafi það í huga.

Auðvitað líður að lokum þessarar umræðu. Ég veit ekki hversu lengi hún mun standa í dag en það kemur auðvitað að atkvæðagreiðslu eftir 2. umr. um málið. Málið mun ganga til fjárlaganefndar og ég óska eftir því að fjárlaganefnd taki alvöruumræðu um það hvort forsendur séu til þess að breyta því. Ýmsir hafa nefnt hugmyndir um breytta aðkomu. Breytt fjármögnun hefur verið nefnd. Hv. þm. Illugi Gunnarsson orðaði einhverjar slíkar tillögur fyrst í umræðunni. Í nefndarálitum og bókunum meðal annars úr umhverfis- og samgöngunefnd er talað um að eðlilegt væri að færa þetta mál inn í samhengi samgönguáætlunar og ég stend við þau sjónarmið. Verði þetta verkefni að veruleika mun ég auðvitað fagna samgöngubótinni eins og aðrir en ég hef hins vegar mjög miklar áhyggjur af því að þær forsendur sem lagðar eru til grundvallar málinu muni ekki standa en um það verður auðvitað framtíðin að skera úr.