140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[11:33]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ítreka spurningu mína til hv. þingmanns: Leggur hann til að ríkissjóður taki lán til að fjármagna framkvæmdir og ekki bara í vegamálum heldur í heilbrigðisþjónustu og annars staðar? Vaxtakostnaður ríkisins hleypur á 80–90 milljörðum á þessu ári og vandi ríkissjóðs er ærinn. Það sem ég hef verið að benda á er að þegar vandamálið er svo stórt er ekki forsvaranlegt að fara í framkvæmdir af þessu tagi nema með þjónustugjöldum og þá þannig að þau muni standa undir kostnaðinum.

Ríkisendurskoðandi kom fyrir fjárlaganefnd og benti á að það væri ríkið sem eignaðist Vaðlaheiðargöng að lokum. Jafnvel þó að svartsýnustu spár mundu rætast er það einfaldlega staðreynd að sú leið sem hér er farin er alltaf ódýrari en að taka málið inn á samgönguáætlun og láta ríkið fjármagna göngin (Forseti hringir.) 100%.