140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[12:21]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Illuga Gunnarssyni fyrir alveg hreint ljómandi ræðu. Mér finnst hann ná að ramma mjög vel inn hver forgangsröðunin í verkefninu á að vera, að menn átti sig á hvað er einkaframkvæmd og hvað opinber framkvæmd. Hann dregur mjög vel fram að í raun er það ríkisvaldið sem fjármagnar þetta verkefni allt upp í 90% og síðan eru það sveitarfélögin fyrir norðan sem koma meira og minna að afgangsfjármögnuninni og þá er um hreina og klára opinbera fjármögnun að ræða.

Ég tek líka undir það með hv. þingmanni að Vaðlaheiðargöngin eru mikilvæg samgöngubót. Maður skilur sjónarmið norðanmanna um það af hverju eigi að setja þau í forgang. Síðan þetta mál kom fyrst fram, árið 2009, hafa forsendur hins vegar breyst í veigamiklum atriðum. Þáverandi samgöngunefnd afgreiddi málið jákvætt af sinni hálfu vegna þess að hún gekk út frá því að engin bein ábyrgð yrði felld á ríkissjóð samkvæmt þá fyrirliggjandi drögum.

Nú sagði hv. þingmaður í ræðu sinni að málið hefði klúðrast, aðferðafræðin sem notuð hefði verið í þessu máli væri með endemum, eins og reyndar í mörgum öðrum málum ríkisstjórnarinnar. Það er í raun ótrúlegt hvernig henni tekst að klúðra hverju málinu á fætur öðru út frá aðferðafræði. Hver ber meginábyrgð á því að þetta mál er komið í þennan klúðurslega farveg?

Í nefndaráliti okkar sjálfstæðismanna í fjárlaganefnd, sem hv. þingmaður skrifar meðal annars undir, segir að beiðni umhverfis- og samgöngunefndar um sjálfstæða og óháða úttekt hafi verið hunsuð og þess í stað hafi fjármálaráðuneytið látið greiningarþjónustu IFS vinna verkefnið. (Forseti hringir.) Mun hv. þingmaður, í krafti þess að málið verði vonandi sett til fjárlaganefndar á milli 2. og 3. umr., halda áfram (Forseti hringir.) að krefjast þess að sjálfstæð úttekt verði gerð út frá forsendum þingsins?