140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[12:26]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Tíminn líður hratt á gervihnattaöld, eins og segir í góðu lagi. Er hv. þingmaður sammála mér í þeim efnum að þessu máli sé best komið fyrir með umfjölluninni um þá samgönguáætlun sem við ræðum á eftir, bæði til fjögurra ára og 12 ára? Er ekki réttast að þetta mál verði rætt í samhengi við samgönguáætlun? Að mínu mati er mjög erfitt að afgreiða samgönguáætlun fyrr en menn sjá stóru myndina varðandi forgangsröðun jarðganga.

Ef sú ósk mín rætist að þetta verði tekið inn í samgönguáætlun og þá sem venjuleg opinber framkvæmd, liggur þá ekki ljóst fyrir að við þurfum að ræða forgangsröðun jarðganga upp á nýtt og meta hana aftur? Ég tel mjög varhugavert að forgangsraða Vaðlaheiðargöngum ef þau eru opinber framkvæmd fram fyrir Norðfjarðargöng eða Dýrafjarðargöng sem eru afskaplega mikilvæg út frá þeim landsvæðum sem um ræðir sem eru einangraðri en velflest önnur svæði landsbyggðarinnar.

Þó að við viljum styðja allar samgönguframkvæmdir — ég vil helst sjá göng í Öskjuhlíðinni og ég vil fá Sundabraut — verðum við eftir sem áður, líka þingmenn suðvesturhornsins, að átta okkur á því að við viljum halda landinu okkar í byggð og þá verðum við að þora að segja hvernig við forgangsröðum fjármunum ríkisins. Er hv. þingmaður sammála mér í því að við þurfum þá að fá tækifæri til að ræða í þinginu upp á nýtt forgangsröðun jarðganga?