143. löggjafarþing — 119. fundur,  16. maí 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[20:28]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil ekki lengja þessa umræðu að óþörfu en vil fyrst og fremst fara nokkrum orðum um þá breytingartillögu sem hér hefur verið lögð fram af hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni. Ég styð hana, hún horfir til bóta. Hún bætir úr ýmsum af þeim ágöllum sem eru á frumvarpinu og ég freistaði að ráða bót á með fyrri tillöguflutningi við 2. umr. málsins en tókst ekki.

Ég vil sérstaklega benda á að höfuðvandi málsins er sá að með þeirri útfærslu sem ríkisstjórnin hefur valið vantar öll efnisleg viðmið fyrir þessari aðgerð. Það er einsdæmi í stjórnskipunarsögu landsins að svo miklar útgjaldaheimildir séu samþykkar án þess að nokkurs staðar sé reynt að greina hvert hið efnislega viðmið er sem skapi rétt til greiðslunnar.

Hæstv. fjármálaráðherra sagði í sjónvarpsviðtali nýverið, þegar hann kynnti þessi frumvörp og var nýbúinn að leggja þau fram, að hann ætlaði ekki að útdeila réttlæti. Hvað er hann þá að gera? Hvað er ríkisstjórnarmeirihlutinn þá að gera? Það er verið að afhenda þessum hæstv. ráðherra óhefta og óskilyrta reglugerðarheimild til að ákveða einhliða forsendur útdeilingar upp á 72 milljarða úr ríkissjóði. Slíkt á sér engin fordæmi. Enginn mun geta borið ákvörðun ráðherrans undir dómstóla á grundvelli réttar eða forsendna réttarríkisins. Ég hef allnokkrar áhyggjur af þessum þætti málsins.

Það er hárrétt, sem kemur fram í breytingartillögum hv. þingmanns, að nauðsynlegt er að breyta heiti frumvarpsins því að ekki er verið að leiðrétta forsendubrest allra. Ríkast kveður að því í tilviki búseturéttarhafa sem allir vita að hafa hingað til notið sama réttar og skuldarar sem búa í eigin húsnæði en eru núna undanskildir og það hafa aldrei fengist nein rök fyrir því af hverju. Nema að í þingsályktunartillögunni gölluðu, sem hér var samþykkt í sumar, að þá hafi húsnæðissamvinnufélög verið undanskilin. Fyrir mistök í þingsályktunartillögu er ekki réttlætingarforsenda fyrir endurteknum mistökum í lagafrumvarpi. Þingmeirihlutinn hefur öll færi á því að leiðrétta sín fyrri mistök.

Virðulegi forseti. Það er líka þannig að fjöldi fólks er ekki að fá neina lausn. Það er sagt að í bígerð séu lausnir fyrir leigjendur. Við höfum fengið að sjá í tillögu verkefnisstjórnar hvað verið er að tala um og við höfum heyrt á hæstv. félagsmálaráðherra að ætlunin sé að þeir peningar, milljarður, sem nú fara í niðurgreiðslur húsnæðislána til félagslegs húsnæðis, fari í stofnstyrki. Það mun ekki duga til að lækka greiðslubyrði fólks sem nú er í leigu. Af hverju í ósköpunum er sumt fólk í landinu svo lítils virði í augum ríkisstjórnarmeirihlutans að það á að bera sín stökkbreyttu lán? Og það eru engar hugmyndir og engar tillögur og ekkert fé sett til þess að lækka greiðslubyrði fólks sem annaðhvort á búseturétt eða leigir í lokuðum leigufélögum.

Að síðustu er óréttlætið í frádráttarliðunum á þann veg að við munum sjá mörg hörmuleg dæmi á næstu mánuðum þegar fólk fer að átta sig á því að Jón og Sigurður, sem búa hlið við hlið, fá fullkomlega ósambærilega niðurstöðu, bara eftir því hvernig þeir fóru að því að tala við bankann sinn um að fá aðlögun skulda sinna að greiðslugetu á sínum tíma. Jón gæti hafa verið í þeirri stöðu að skuldirnar hefðu verið lækkaðar innan ramma sértækrar skuldaaðlögunar, þá verður öll lækkunin dregin frá. Sigurður gæti hafa þekkt bankastjóra og átt góðan aðgang í bankakerfinu og átt aðrar eignir sem hefðu getað valdið því að hann hefði getað haft sterkari samningsstöðu, eða hann hefði getað verið svo heppinn að vera í viðskiptum við banka sem taldi sértæka skuldaaðlögun frekar flókið og tafsamt úrræði. Það eru margir bankar sem kusu að heimfæra skuldalækkanir ekkert undir sértæka skuldaaðlögun. Þá er Sigurður slíkur lukkunnar pamfíll að hann fær algjörlega óskerta leiðréttingu þó að hann sé í fullkomlega sambærilegri stöðu við manninn við hliðina á sér. Svona dæmi verða mýmörg á næstu missirum.

Það dapurlegasta er að vegna einbeitts vilja ríkisstjórnarflokkanna, sem við látum nú á reyna enn á atkvæðagreiðslu um breytingartillögu, til að hemja ekki á nokkurn hátt óréttlætið í aðgerðinni, þá skapast ekki hið fjárhagslega svigrúm sem er nauðsynlegt til að mæta fólki í skuldavanda annars staðar en í eigin húsnæði, svo sem eins og búseturéttarhöfum, svo sem eins og leigjendum. Þar af leiðandi eru peningarnir notaðir, sem búið er að afla eða ætlunin er að afla með bankaskattinum á næstu árum, í verkefni sem ekki nýtast til að leysa skuldavandann.

Skuldavandinn verður viðvarandi verkefni okkar hér á næstu árum. Við munum, alla vega fyrir okkar leyti í Samfylkingunni, ganga ríkt eftir því að ríkisstjórnin efni þau fyrirheit sem hún hefur í orði kveðnu sett fram gagnvart leigjendum, gagnvart búseturéttarhöfum, gagnvart öllu því fólki sem hefur fengið hér óljós fyrirheit um úrlausn á síðari stigum.