143. löggjafarþing — 119. fundur,  16. maí 2014.

lokafjárlög 2012.

377. mál
[21:16]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Hér var vitnað í góðan vin minn, hv. fyrrverandi þingmann Ásbjörn Óttarsson, sem var og er afskaplega duglegur einstaklingur. Ég get alveg fullyrt að Ásbjörn Óttarsson hefði ekki skrifað nefndarálit sem þetta. Ég verð að segja alveg eins og er að við erum ósammála um ýmislegt, en þetta nefndarálit veldur mér miklum vonbrigðum. Það er persónulegt í garð hv. þingmanns, formanns fjárlaganefndar, og ég hélt að hv. stjórnarandstöðuþingmenn væru alveg komnir með nóg af slíku. En það má kannski alltaf bæta í. Ég veit ekki alveg hvenær komið er nóg hvað það varðar.

Virðulegi forseti. Ég varð ekki var við annað en að hv. þingmaður, formaður fjárlaganefndar, gerði allt sem hægt var til að koma til móts við óskir hv. þingmanna stjórnarandstöðunnar. Ef menn á annað borð fara út í að nefna slíkt í nefndaráliti, sem ég hef ekki séð oft gert, fyndist mér eðlilegt að það yrði bara sagt.

Síðan geta menn haft allar skoðanir á lokafjárlögum. Við í hv. fjárlaganefnd getum ekki bara kallað eftir upplýsingum á fundum, við erum með tvo starfsmenn sem eru hlaupandi fyrir okkur og gera allt það sem við viljum þannig að við getum líka kallað eftir upplýsingum á milli funda. Það er nokkuð sem Ásbjörn Óttarsson, sá duglegi og góði drengur, gerði mikið af og ég hélt að það væri almenna reglan að menn gerðu slíkt.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg eða stór orð um þetta annað en að orðalagið í þessu nefndaráliti veldur mér miklum vonbrigðum.