143. löggjafarþing — 119. fundur,  16. maí 2014.

útlendingar.

249. mál
[21:25]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég vildi bara að það kæmi fram að ef ég ætti að skrifa löggjöfina yrði hún talsvert mikið frábrugðin þessari. En þótt ekki sé allt í þessu frumvarpi eins og ég mundi vilja hafa það er þetta mjög stór og erfiður málaflokkur og við Íslendingar, og sérstaklega íslenska ríkisstjórnin, þurfum að taka okkur saman í andlitinu þegar kemur að útlendingum á Íslandi, hvort sem það eru innflytjendur sem koma hér til þess að vinna eða flóttamenn eða hvaðeina. Málin hér eru langt frá því að vera í nógu góðu lagi.

Það sem ég vildi taka sérstaklega fram er að ástæðan fyrir því að ég styð þetta mál heils hugar er sú að með því er komið á fót kærunefnd sem er kærkomin breyting og mun vera mikil bót fyrir hagsmuni þeirra sem njóta þjónustu Útlendingastofnunar. Ég vildi að þetta kæmi fram en vildi líka ítreka og árétta að við þurfum að gera miklu meira í þessum málaflokki. Við þurfum að fara að taka hann alvarlega og hann þarf meira fjármagn.