150. löggjafarþing — 119. fundur,  18. júní 2020.

kjarasamningar hjúkrunarfræðinga.

[10:37]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er, verð ég að segja, orðið mjög dapurlegt í þinginu hvernig menn ræða um kjör opinberra stétta. Mér þykir orðið mjög dapurlegt hvernig menn vilja reyna að ná pólitísku höggi á stjórnvöld hverju sinni með því að taka alltaf upp einhliða málstað þess sem er að semja við ríkið. Þetta er orðin lenska hér á þinginu í umræðu um kjaramál og er auðvitað fullkomlega óábyrgur málflutningur frá formanni Samfylkingarinnar sem hefur í raun ekkert annað fram að færa í þessari umræðu en að fallast eigi á allar kröfur hjúkrunarfræðinga til þess að samningar geti tekist og svo megi bara það verða sem verða vill um forsendur allra annarra samninga og áhrifin út á við. Þetta er auðvitað ekki boðlegur málflutningur. Á engan hátt. Og það eru heldur engar aðstæður í þingsal til að fara að tala um alla þá (Forseti hringir.) fjölbreyttu þætti sem liggja undir í kjarasamningagerð og skipta hér máli. (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) — Launin skipta máli, hv. þingmaður. (Gripið fram í.)