150. löggjafarþing — 119. fundur,  18. júní 2020.

hugtakið mannhelgi.

627. mál
[11:18]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg):

Herra forseti. Það má með réttu segja að hugtakið mannhelgi sé nokkuð víðfeðmt auk þess sem skilgreining þess kann að innihalda ólíka þætti eftir því í hvaða samhengi það er skilgreint. Í grundvallaratriðum snertir það það sem er okkur næst, persónu okkar, líf og limi og einkalíf. Í flestum vestrænum samfélögum er mannhelgi ein af grundvallarstoðum samfélagsins og lífi einstaklingsins því gert hærra undir höfði en öðrum gildum samfélagsins.

Á málefnasviði hæstv. ráðherra eru ýmsir hópar þar sem mannhelgishugtakið skiptir sérstaklega miklu máli. Þar má til að mynda nefna fanga og aðra þá sem hafa verið frelsissviptir. Fyrir vikið eru þessir hópar í viðkvæmri stöðu þegar kemur að réttindum og því hvernig aðrir virða rétt þeirra til friðhelgi og mannhelgi. Það má í raun segja að við sem samfélag höfum með frelsissviptingu ákveðið að svipta þessa einstaklinga hluta af mannhelgi þeirra. Því er enn mikilvægara en ella að allt réttarvörslukerfið, löggæslukerfið og dómskerfið sé á varðbergi og gefi mannhelgi sérstakan gaum. Ef að líkum lætur er einnig mjög mikilvægt að í menntun þeirra sem þessum störfum sinna sé sérstaklega hugað að því að fólk sé meðvitað um viðkvæma stöðu þeirra sem þarna eru undir.

Þá má einnig nefna stöðu innflytjenda og flóttafólks sem stundum er gert að sæta úrskurðum og ákvörðunum annarra um afdrif og stöðu sem getur stangast algerlega á við þeirra eigin hugmyndir og gildi. Oft er um að ræða fólk sem er í mjög viðkvæmri stöðu og á jafnvel erfitt með að tjá sig og sínar óskir auk þess sem það reiðir sig að miklu leyti á stuðning samfélagsins. Vilji einstaklingsins er lykilþáttur í mannhelgishugtakinu og því er að ýmsu að huga þegar mál þessara einstaklinga eru tekin til meðferðar og þeim veitt þjónusta.

Einnig er mikilvægt að ræða þetta í samhengi lögræðislaga og frelsissviptinga á grundvelli þeirra. Brot gegn mannhelgi eru ekki skilgreind sérstaklega í almennum hegningarlögum. Hins vegar eru í XXV. kafla nokkrar greinar sem snúa að friðhelgi einkalífs og þar eru allnokkrir þættir sem snúa að mannhelgi auk þess sem brot gegn persónu, lífi og limum fólks eru brot gegn mannhelgi þótt mannhelgi sé ekki skilgreint sem hugtak. Og það má kannski sérstaklega taka fram, herra forseti, að eftir samþykkt þingsins á þingsályktunartillögu um siðferðileg gildi og forgangsröðun í heilbrigðisþjónustu, þar sem mannhelgi er einmitt skilgreind sem grunngildi, er enn þá mikilvægara að hugað sé að þessu, að við séum öll á sömu blaðsíðunni.

Því er spurt, eins og kemur fram í fyrirspurninni, hvort hæstv. ráðherra telji að mannhelgi séu gerð fullnægjandi skil í lögum á málefnasviði ráðuneytisins, hvort hún telji að það mætti koma skýrar fram í lögum hvað hugtakið raunverulega þýði. Og að lokum hvort ráðherra telji jafnvel að hugtakið sé of óáþreifanlegt (Forseti hringir.) til að hreinlega sé hægt að gera því skikkanleg skil í samræmdri löggjöf á Íslandi.