150. löggjafarþing — 119. fundur,  18. júní 2020.

hugtakið mannhelgi.

627. mál
[11:26]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S):

Virðulegur forseti. Ég hefði heldur kosið að þetta efni væri tekið til langrar umræðu, það tekur heilan dag ef það á að ræða í einhverjum smáatriðum. Mannhelgi er ekki aðeins réttindi mannsins, hún felur líka í sér ákveðnar skyldur sem eru lagðar á hann, t.d. að löggjafinn hefur lagt skyldur á einstaklinga til að afla sér lífeyrisréttinda og þau lífeyrisréttindi skerða bætur almannatrygginga á hverjum tíma. Sömuleiðis vill einstaklingur, til þess að hann geti haldið reisn sinni, hafa örlítið sparifé sér til framfærslu í ellinni en nú hefur löggjafinn á undanförnum árum stöðugt þrengt að þeim þætti með því að ofurskattleggja sparifé einstaklinga þannig að raunskattlagning sparifjár er komin langt umfram 100% miðað við núverandi skattprósentur. Ég vil minna þingheim á það, í þessu einstaka tækifæri sem ég fæ, að einstaklingur á þann rétt, (Forseti hringir.) hann á þann eignarrétt og löggjafanum ber að tryggja hann.