154. löggjafarþing — 119. fundur,  10. júní 2024.

breytingar á ýmsum lögum vegna eftirlits og leyfisveitinga Orkustofnunar.

898. mál
[16:05]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Ásmundur Friðriksson) (S):

Virðulegi forseti. Hér er stutt nefndarálit með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingar á ýmsum lögum vegna eftirlits og leyfisveitinga Orkustofnunar, þjónustugjöld, frá meiri hluta atvinnuveganefndar. Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund gesti frá umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu, Samorku, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum iðnaðarins og Landsvirkjun. Nefndinni bárust fjórar umsagnir um málið sem eru aðgengilegar á síðu málsins á vef Alþingis.

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ýmsum lögum með það að markmiði að tryggja heimildir Orkustofnunar til að innheimta gjöld í samræmi við kostnað af leyfisveitingum og eftirliti. Núgildandi gjöld eru ekki í samræmi við kostnað vegna vinnu við eftirlit og afgreiðslu leyfisumsókna hjá Orkustofnun. Meiri hlutinn telur málið mikilvægt skref í þá átt að veita stjórnvöldum aukin tækifæri til að bæta þjónustu og tryggja að tímafrestir standist. Umsagnir um málið voru að mestu jákvæðar. Meiri hlutinn tekur þó undir þá ábendingu flestra umsagnaraðila að mikilvægt sé að huga að því að innheimt þjónustugjöld endurspegli veitta þjónustu. Beinir meiri hlutinn því til ráðuneytisins að tryggja að svo verði.

Meiri hlutinn leggur til breytingar á frumvarpinu sem eru tæknilegs eðlis og ekki ætlað að hafa efnisleg áhrif.

Að framangreindu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með breytingu sem hljóðar eins og þar stendur í álitinu. Undir nefndarálitið rita Þórarinn Ingi Pétursson, formaður nefndarinnar, Eva Dögg Davíðsdóttir, Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, Óli Björn Kárason og sá er hér stendur, Ásmundur Friðriksson, sem er framsögumaður þessa einfalda og stutta máls.