154. löggjafarþing — 119. fundur,  10. júní 2024.

fjáraukalög 2024.

1146. mál
[17:34]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að þakka hv. þm. Kristrúnu Frostadóttur fyrir þessa yfirferð. Sem sætisfélagi í fjárlaganefnd vil ég taka undir flest af því sem hún rakti í máli sínu, allt frá því sem hún nefnir hvernig talað er um upphæðir allt upp í 20 milljarða sem atriði sem engu máli skipti og síðan kannski þetta augljósa atriði, því að ég er þingmanninum einlæglega sammála um og ég hef aldrei merkt neitt annað, hvorki hér inni í þessum sal né við umfjöllun í fjárlaganefnd, að það sé fullkomin samstaða og einhugur um það að Alþingi Íslendinga eigi að gera allt sem í þess valdi er til að bæta Grindvíkingum það tjón sem bæjarbúar og bæjarfélagið hefur orðið fyrir og gera það með sómasamlegum hætti. En svo er þetta atriði sem þingmaðurinn nefnir og ég er einlæglega sammála um, þessi forðun á því að ræða um það að auðvitað hafa efnahagsaðgerðir af þessari stærðargráðu einhver áhrif og það vanti dálítið upp á þann þátt málsins í yfirferðinni. Hver eru líkleg áhrif á verðbólgu? Hver eru líkleg áhrif á vexti? Hver eru líkleg áhrif á húsnæðismarkað? Einhver verða viðbrögðin. Við vitum það í samhengi hlutanna að eigi að bregðast við þá eru í grunninn þrjár leiðir til þess, þ.e. hvernig eigi að fjármagna þessar aðgerðir.

Mig langaði einfaldlega til að spyrja þingmanninn að því hvað hún telur að sé þarna að baki, hvað það er í þessu pólitíska samhengi sem gerir það að verkum að þessi forðun á þessum hluta samtalsins blasir við. Ég ætla líka að leyfa mér að segja að mér finnst það hættulegt að ræða myndina í pólitísku samhengi ekki eins og hún blasir við okkur, að forðast það. Þegar það síðan kemur á daginn, eins og þingmaðurinn nefnir, að hádegisverðurinn er ekki ókeypis þá er það líka til þess fallið (Forseti hringir.) að hafa áhrif inn í pólitíska orðræðu og umhverfi þegar látið hefur verið að því liggja að allur þessi kostnaður geti bara birst án þess að áhrifin séu nokkur einustu.