154. löggjafarþing — 119. fundur,  10. júní 2024.

fjáraukalög 2024.

1146. mál
[17:54]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Hún minntist á fjárauka þrjú vegna kjarasamninganna. Ég bendi hv. þingmanni og þingheimi á það að í kafla 3, um endurmat á afkomu ársins 2024, er nánast nákvæmlega sama málsgrein um heildartekjur ríkissjóðs og í fjárauka þrjú. Það er minnst á Landsvirkjun, það er minnst á að heildartekjur eru áætlaðar um 1.367 milljarðar o.s.frv. Við notum bara Landsvirkjunarpeningana einu sinni og þeir eiga að fara í kjarasamningana. Þeir fara ekki í þetta. Mér finnst þetta ógagnsæi algerlega óþolandi, að þeir segi ekki nákvæmlega hvaðan peningarnir eiga að koma. Vissulega er meira að koma í kassann og það allt en þetta mun leiða til verðbólgu. Við erum öll sammála um það. Ég tel það algjörlega óásættanlegt að ekki sé upplýst nákvæmlega hvernig þetta er borgað. Að sjálfsögðu þarf að fara í mótvægisaðgerðir. Telur hv. þingmaður ekki nauðsynlegt, vegna þessara útgjalda ríkissjóðs og vegna þess að þetta hækkar verðbólgu og vegna þess að stýrivextirnir eru lengur í 9,25%, að fara í (Forseti hringir.) ákveðnar mótvægisaðgerðir til að taka peninga aftur út úr hagkerfinu með skatti eða (Forseti hringir.) öðrum hætti til að fá niður stýrivexti? Það er stóra hagsmunamálið.