154. löggjafarþing — 119. fundur,  10. júní 2024.

fjáraukalög 2024.

1146. mál
[18:51]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir seinna andsvarið. Þetta er einmitt kjarni málsins. Mér finnst mjög ósanngjarnt að við séum að borga fyrir stuðninginn við Grindavík óbeint í gegnum aðeins hærri verðbólgu og hærri stýrivexti. Það er óréttlátt að greiða það þannig. Það er óréttlátt, t.d. varðandi stýrivextina, að það eru bara ákveðnir hópar sem borga hærri vexti, það eru skuldsettu hóparnir og það er mjög ósanngjarnt að þeir séu að borga hærri vexti af húsnæðislánum sínum vegna hærri stýrivaxta vegna þess að verðbólga var hærri vegna þess að við settum svo mikinn pening inn í hagkerfið til að styðja við Grindavík. Það er óréttlátt og það er ekki rétt. Með því er ég ekki að segja að við eigum ekki að styðja Grindavík, ég er alls ekki að segja það. Ég er að segja að það er óréttlátt fjármögnun. Hún er líka óljós. Við vitum ekki alveg hversu mikil áhrif stuðningur við Grindavík hefur á verðbólguna, við vitum það ekki. Ég hef ekki enn séð neina útreikninga á því. Við vitum ekki heldur hversu mikil áhrif það hefur á stýrivextina. Við vitum það ekki. Það er óbein afleiðing af verðbólgu, hærri stýrivextir, en við vitum a.m.k. ekki hvort og hversu mikil áhrifin á verðbólguna eru en það er alveg klárt mál að það eru einhver áhrif vegna þess að við erum að setja peninga inn í hagkerfið sem við ella hefðum ekki gert. Að sjálfsögðu er þetta högg á hagkerfið, jarðhræringarnar í Grindavík. Þetta er högg og við verðum öll aðeins fátækari fyrir vikið. Það er bara spurning hverjir verða fátækari og hvernig. Það er það sem er ósanngjarnt og það er það sem við þurfum að ræða.

Þetta verður borgað á endanum af skattborgurunum. Það er alveg klárt mál. Það er bara spurning af hverjum og hvernig, það er stóra málið og um það höfum við ekki tekið nægjanlega umræðu. Stjórnvöld hafa ekki svarað þessu. Fjármálaráðuneytið hefur ekki komið með greiningu á þessu. Það er það sem okkur vantar og það finnst mér ekki nægilega gott. Það að biðja um þessa greiningu snýst ekki um það að vera á móti Grindvíkingum eða eitthvað svoleiðis. Það bara gerir það ekki vegna þess að við vitum öll að stuðningurinn kostar.