154. löggjafarþing — 119. fundur,  10. júní 2024.

fjáraukalög 2024.

1146. mál
[22:37]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegi forseti. Mig langar hér í seinni ræðu minni að koma inn á nokkur atriði. Ég byrja á því sem ég tel að hafi tekist mjög vel. Það eru varnargarðarnir sem hafa verið að verja Grindavíkurbæ og líka Svartsengi og Bláa lónið. Ég tel að það hafi tekist mjög vel. Þetta er náttúrlega tæknileg framkvæmd og fyrsta málið sem við fengum inn í þingið var að fjármagna varnargarða fyrir Svartsengi og líka Bláa lónið upp á rúmlega 2,5 milljarða. Það var hins vegar lagður skattur á til að fjármagna það, það var ekki farið í varasjóðinn og náð í pening þar sem var þó til, 3,8 milljarðar. Ég var á móti þeirri skattlagningu en þetta var samt keyrt í gegn á einum degi. Ég held að framhaldsaðgerðir sem var farið í, varnargarðarnir við Grindavík, hafi líka tekist mjög vel. Hér er í þessu fjáraukalagafrumvarpi verið að óska eftir 4,5 milljarða fjárheimild vegna framkvæmda við varnargarða til að vernda byggð og mannvirki fyrir hraunflæði. Þetta eru peningar sem við höfum varið vel, að ég tel, a.m.k. miðað við það sem ég hef séð á myndum og heyrt í fréttum. Ég veit svo sem ekki hvort allir varnargarðarnir hafi sinnt hlutverki sínu en þetta virðist hafa tekist mjög vel.

Hér er líka verið að setja 960 milljónir til rekstraraðila og það er þegar búið að setja einhverja milljarða í það, mikinn pening. Ég held að það hefði mátt endurskoða þá aðferðafræði sem var notuð þar og reyna að ná til fleiri atriða, t.d. varðandi framtíðartekjur. Það var miðað við 40% tekjufall og miðað við starfsmannafjölda sem var tíu, ef ég man rétt, en ég held að fyrirtæki sem urðu t.d. ekki fyrir 40% tekjufalli miðað við árið á undan geti líka þurft á hjálp að halda, t.d. nýsköpunarfyrirtæki. Sæeyrnafyrirtækið t.d., Sæbýli minnir mig að það heiti, á von á tekjum í framtíðinni og við skulum vona þá að afurðasjóður, sem er nýstofnaður, taki á því sem hér er verið að lýsa. Það á að auka fjárheimildir hans um 400 milljónir. Það á eftir koma í ljós hvernig það verður. En það er mjög sérstakt þar að það gildir raunverulega bara tímabilið frá gildistöku laga um afurðasjóðinn til áramóta. Það er mjög skammur tími, það er raunverulega bara hálft ár rúmlega sem þessi sjóður mun bæta, a.m.k. fyrsta kastið, þ.e. það tjón sem verður frá gildistöku laganna til áramóta. Það held ég að hefði mátt skoða betur og skoða afurðir sem hafa þegar tapast sem styrkur til rekstraraðila nær ekki til, að afurðasjóðurinn myndi ná yfir miklu breiðara tímabil og gefa meira svigrúm fyrir stjórn sjóðsins að bæta tjón sem fyrirtæki hafa orðið fyrir og eru ekki styrkt með öðrum hætti. Það getur verið alls konar tjón og þá þurfa rekstraraðilar að hafa stuðningsúrræði. Það má segja að þetta sé eiginlega eina viðbótin sem kemur við stuðning við rekstraraðila, það er afurðasjóðurinn, en það er mjög skammur tími sem tjónið getur verið á, bara frá gildistöku laganna til áramóta.

Í fjórða lagi er verið að auka fjárheimildir um 250 millj. kr. vegna sérstaks húsnæðisstuðnings til þeirra sem þurfa að leigja húsnæði til íbúðar utan Grindavíkur. Ég held að þar séu margir einstaklingar sem þyrfti að skoða einstaklingsbundið. Ég er alveg sannfærður um það. Ég hef heyrt í nokkrum sem hafa haft samband við mig vegna lögheimilisskráningar og sem eru kannski með húsnæði sem er á tveimur fasteignanúmerum. Ég held að það mál komi örugglega aftur til okkar.

Svo er það þessi stjórnsýslukostnaður varðandi framkvæmdanefndina og líka að sjálfsögðu stjórnsýsla í kringum Þórkötlu, það er mikilvægt að greiða líka fyrir það.

Það sem ég tel vera aðalatriðið í þessu er það að íslenskt samfélag verður fyrir tjóni. Þetta er áfall fyrir íslenskt samfélag, þetta er efnahagslegt áfall. Þetta kostar okkur um 100 milljarða kr. (Forseti hringir.) en það er líka skert verðmætasköpun sem við þurfum að skoða frekar og svo eru það líka áhrif á verðbólguna og fjármögnun. (Forseti hringir.) Byrðarnar af stuðningi við Grindavík verða að fara jafnt á alla í samfélaginu. Ég er viss um að það sé vilji til þess í samfélaginu að svo sé.