154. löggjafarþing — 119. fundur,  10. júní 2024.

breytingar á ýmsum lögum vegna eftirlits og leyfisveitinga Orkustofnunar.

898. mál
[23:08]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður snertir hér á mjög mikilvægu atriði sem við í Samfylkingunni fjöllum um í orkustefnu okkar. Þar leggjum við til að það verði beinlínis bundið í lög að umsóknir um leyfi vegna verkefna sem hafa verið sett í nýtingarflokk rammaáætlunar — sem löggjafinn hefur raðað með þeim hætti að þar er gert ráð fyrir virkjunum, og þá erum við að tala um stórvirkjanir — skuli hafa forgang í stjórnkerfinu. Þannig hefði t.d. mátt koma í veg fyrir þær miklu tafir sem urðu á afgreiðslu leyfis vegna Hvammsvirkjunar. Og það sem hv. þingmaður nefnir hér, að margar smærri virkjanir hafi verið ofar í staflanum, er eitthvað sem við höfum heyrt aftur og aftur og eitthvað sem ég veit að Orkustofnun sjálf lenti í vandræðum með, að hún hafði ekki lagaheimildir, alla vega ekki að eigin mati, til að forgangsraða verkefnum með þessum hætti. Og hér þarf ekkert að mæla sérstaklega fyrir um að þjóðhagslega mikilvægar framkvæmdir fái forgang, sem er svolítið matskennt, af því að við höfum hvort eð er það tæki sem rammaáætlun er, þar sem löggjafinn raðar ákveðnum verkefnum, ákveður að ákveðin verkefni skuli fá framgang að gefnum öllum eðlilegum fyrirvörum um umhverfismat og almenningssamráð. Ég tek því undir þetta meginstef í spurningu hv. þingmanns.