131. löggjafarþing — 119. fundur,  29. apr. 2005.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[11:47]

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég harma þá útúrsnúninga sem fram koma í máli hv. formanns utanríkismálanefndar Alþingis. Hún segir að það beri nýrra við að ég og við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði berum hag starfsmanna Íslands á erlendum vettvangi fyrir brjósti og segir að við höfum áður gagnrýnt svokallaðar öryggissveitir í Afganistan, að það fari ekki saman.

Ég hef margoft vikið að öryggi þessara einstaklinga. Hér í ræðustól og í opinberri umræðu á liðnum mánuðum hef ég margoft einmitt vikið að tryggingamálum og hagsmunum einstaklinganna. Ég hef átt viðræður við talsmenn stéttarfélaganna sem þessir einstaklingar hafa átt aðild að og við höfum rætt um réttindamál þeirra. Ég hef komið hér upp til að reyna að styðja þá viðleitni sem þeir hafa í frammi til að búa svo um hnúta að réttindi þessa fólks séu tryggð. Að rugla saman annars vegar hernaði og herjum og hins vegar þeim einstaklingum sem koma þar við sögu er alveg út í hött, og alveg fráleitt. Ímyndar hv. þingmaður sér að ég hatist út í alla sem komið hafa nálægt hermennsku eða verið gert að gegna einhverjum störfum af því tagi? Því fer fjarri. Það hefur ekkert breyst í afstöðu okkar til aðildar okkar að starfinu í Afganistan sem er undir handarjaðri NATO og þess að þessir einstaklingar séu þannig skilgreindir sem hermenn. Við höfum gagnrýnt það mjög ákveðið.

Varðandi þann hluta í ræðu hæstv. ráðherra þar sem hann vék að fyrirhuguðu frumvarpi um friðargæsluna fór hann ekkert fram hjá mér fremur en margt annað í ræðunni. (Forseti hringir.) Ég íhuga hana. Ég er einvörðungu að leggja (Forseti hringir.) áherslu á mikilvægi þess að búið sé vel að réttindum þessa fólks.