131. löggjafarþing — 119. fundur,  29. apr. 2005.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[14:38]

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst út af þessu varðandi alþýðubandalagsflokkana. Ég skil vel að hv. þingmenn séu viðkvæmir fyrir því að þeir séu kenndir við þann flokk. Ég er stundum kallaður íhaldsmaður og þá er verið að vísa til þess að fyrirrennarar Sjálfstæðisflokksins voru Íhaldsflokkurinn og Frjálslyndi flokkurinn og þeir sameinuðust árið 1929. Ég upplýsi það hér með að ég var aldrei í Íhaldsflokknum en það er ekkert til að skammast sín fyrir að vera tengdur þeim flokki.

Hins vegar liggur alveg fyrir að bæði Vinstri grænir og Samfylkingin eru komin frá Alþýðubandalaginu en ég skil vel að það sé viðkvæmt að minnast á það. Ég hef ekki tíma í andsvarinu til að fara yfir það allt saman — þótt ég hefði allan sólarhringinn mundi það ekki nægja mér.

Ég hef gaman af því hvað hv. þingmaður er algjörlega með það á hreinu hvaða skoðanir konur í Írak hafa, hvorki meira né minna. Ég man ekki hversu margar milljónir þær eru. Þær augljóslega tala allar einum rómi. Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir er algjörlega með það á hreinu hvaða skoðun það er.

Ef menn trúa því, virðulegi forseti, að það hefði verið hægt að tala Saddam Hussein til og biðja hann kurteislega um að hætta að stýra landinu er það auðvitað bara þannig. Ég hef sjálfur ekki nokkra trú á því að svo hafi verið. Ég veit ekki hvaða öðrum aðferðum var hægt að beita til að koma honum frá. Ég veit ekki til þess að neinn hafi komið með slíkar hugmyndir sem væru framkvæmanlegar.

Virðulegi forseti. Enginn hefur haldið því fram að allt sé slétt og fellt og orðið eitthvað fullkomið í Írak. Því ferð víðs fjarri. Við skulum vona að þessi fyrstu skref sem voru stigin í lýðræðisátt — ég vil ekki gera lítið úr lýðræðinu í Írak og mér þykir algjör vansæmd við þetta fólk sem var að hætta lífi sínu með því að taka þátt í kosningum að gera það. Þetta er mjög merkilegt skref.