132. löggjafarþing — 119. fundur,  1. júní 2006.

aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

651. mál
[14:40]
Hlusta

Frsm. efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, frá hv. efnahags- og viðskiptanefnd.

Nefndarálitið er að finna á þskj. 1275 og þar er getið um gesti sem komu til nefndarinnar sem og umsagnir sem bárust henni. Þá er frumvarpinu einnig lýst.

Nefndin leggur til að gerðar verði ýmsar breytingar á frumvarpinu, flestar þeirra tæknilegar sem lýst er í nefndaráliti en nokkrar efnislegar sem ég ætla að ræða.

1. Lagðar eru til tvær breytingar á 4. gr. Annars vegar að orðinu „viðvarandi“ verði bætt við a-lið til að undirstrika að átt sé við samninga sem ætlað er að gildi til lengri tíma. Hins vegar er lagt til að á eftir b-lið 1. mgr. komi nýr stafliður um að kanna þurfi áreiðanleika viðskiptamanns fari gjaldeyrisviðskipti hans yfir 1.000 evrur. Þetta er sett inn til að nálgast sjónarmið Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja, samanber umsögn þeirra.

2. Lagðar eru til breytingar á 5. gr. Í fyrsta lagi eru lagðar til breytingar á 1. málsl. 1. mgr. til að taka af allan vafa um að ákvæðið eigi bæði við um viðvarandi samningssamband og einstök viðskipti. Í öðru lagi eru lagðar til breytingar á 3. mgr. til að taka af öll tvímæli um hvernig kennsl skuli borin á þriðja mann með því að vísa í a- og b-lið 1. mgr.

Þá eru þrjár tæknilegar breytingar sem ég ætla að láta vera að fara yfir.

6. Lögð er til breyting á fyrri málslið 3. mgr. 16. gr. til að taka af allan vafa um að ákvæðið eigi jafnframt við þegar lögmaður veitir ráðgjöf um hvort höfða eigi dómsmál eða komast hjá dómsmáli. Tillaga þessi tekur mið af ábendingu Lögmannafélags Íslands um að gæta samræmis við 2. mgr. 9. gr.

Svo eru tvær tæknilegar breytingar.

9. Lögð er til breyting á 29. gr. um að gildistöku 12. gr. verði frestað til að koma til móts við beiðni Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja um aðlögunartíma til að undirbúa framkvæmd samkvæmt þessu ákvæði, en gert er ráð fyrir því að ákvæði 12. gr. taki gildi 1. janúar 2007.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með fyrrnefndum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Í nefndinni var rætt ítarlega um þær auknu heimildir sem veittar eru bönkum og fjármálafyrirtækjum til að veita upplýsingar um reikninga þriðju aðila til opinberra aðila. Miklar umræður urðu um hvernig ríkið gengur í auknum mæli á réttindi einstaklinga sem er afleiðing af hryðjuverkunum í Bandaríkjunum fyrir nokkrum árum og mikið var rætt í nefndinni um það hvort menn væru hugsanlega að ganga of nærri persónurétti einstaklinga. Vegna þess hyggst nefndin taka málið aftur inn milli 2. og 3. umr. og ræða enn frekar það atriði og gera hugsanlega breytingar á frumvarpinu ef þurfa þykir þannig að gætt sé persónuverndar einstaklinga ef upplýsingar um reikninga þeirra eru gefnar til opinberra aðila.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins og hv. þm. Ögmundur Jónasson skrifar undir álit þetta með fyrirvara.

Undir nefndarálitið rita hv. þingmenn Pétur H. Blöndal, Jónína Bjartmarz, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Guðjón Ólafur Jónsson, Birgir Ámannsson, Ingvi Hrafn Óskarsson, Ögmundur Jónasson, með fyrirvara, og Lúðvík Bergvinsson.