132. löggjafarþing — 119. fundur,  1. júní 2006.

réttarstaða samkynhneigðra.

340. mál
[16:08]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég er algjörlega sammála því sem hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir sagði áðan. Það á ekki að dæma fólk á grundvelli kynhneigðar. En jafnvel að þessu frumvarpi samþykktu verða menn samt sem áður dæmdir á grundvelli kynhneigðar, að minnsta kosti frammi fyrir guði.

Ég er þeirrar skoðunar að það sé ákaflega mikilvægt að halda áfram að berjast fyrir því að samkynhneigðum sé ekki mismunað gagnvart kirkjunni. Ég tel að kirkjan sé mjög afturhaldssöm í þessum efnum. Ég á mjög erfitt með að sætta mig við það ef ekki verður undinn bráður bugur að því að breyta lögunum í framhaldi af þessu.

Hins vegar vil ég að það komi alveg skýrt fram að ég er sáttur við þessa málamiðlun. Ég er í hjarta mínu mjög glaður yfir því að tekist hefur samstaða meðal þingmanna um að ná þessu fram. Ég tel þetta alveg gríðarlega mikilvægan áfanga. Mörg okkar hafa barist fyrir þessu allar götur frá því við komum hér á þing síðla síðustu aldar. Eins og hv. þm. Guðrún Ögmundsdóttir sagði áðan er þetta með vissum hætti endir á löngu ferli. Ég gleðst því yfir þessu.

Samt sem áður er ég þeirrar skoðunar að það sé að minnsta kosti í andstöðu við anda stjórnarskrárinnar að meina samkynhneigðum að fá að gifta sig og fá blessun kirkjunnar frammi fyrir sínum guði. Ég tel að það sé grundvallaratriði. Ég er virkur meðlimur í söfnuði sem hefur tekið fyrir sitt leyti afstöðu til að heimila þetta. Lögin hins vegar banna þessum söfnuði, sem er Fríkirkjusöfnuðurinn, að láta það ganga til framkvæmda. Mér finnst það miður.

Ég vil hins vegar taka undir með þeim sem hér hafa talað. Þetta er mikilvægur áfangi. Stjórnmál eru list hins mögulega og lengra var ekki hægt að komast að þessu sinni. Þetta er samt stórkostlegur áfangi.