138. löggjafarþing — 119. fundur,  7. maí 2010.

forgangsmál ríkisstjórnarinnar í umhverfismálum.

[13:36]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Fyrir kosningarnar 2007 skrifaði ég pistil sem ég nefndi „It's hard to be umhverfissinni“. Hugmyndin að pistlinum vaknaði þegar ég hlustaði á Guðfríði Lilju Grétarsdóttur, þáverandi frambjóðanda VG í Kraganum og núverandi þingflokksformann flokksins, segja í Silfri Egils að það að vera umhverfisverndarsinni væri erfitt. Því mundu flestir af hinum nýju umhverfisverndarsinnum, hélt hún áfram, sem þá voru að koma fram ekki hafa úthald til að vera raunverulegir umhverfissinnar, aðeins frambjóðendur og flokksmenn Vinstri grænna.

Eftir nokkra umhugsun gerði ég mér grein fyrir að ég væri sammála henni, þ.e. hvað varðar erfiðleikana við það að vera raunverulegur umhverfisverndarsinni. Hæstv. fjármálaráðherra hafði þá ekki sagt skilið við stóra jeppann sinn, ekki frekar en gestir á mótmælafundum vegna virkjana í Þjórsá, og hversu mörg okkar veltum koldíoxíðmengun fyrir okkur þegar við skipuleggjum sumarfríið? Árlega notum við 15–20 milljónir plastpoka sem geta tekið allt að því þúsund ár að brotna niður og þegar ævi okkar lýkur er mengun og niðurbrot líkamsleifa sjaldnast efst í huga aðstandenda okkar.

Ég hef aldrei skilgreint mig sem umhverfisverndarsinna þrátt fyrir áhuga á umhverfismálum og ýmsa hegðun sem mætti túlka sem umhverfisvæna. Þrátt fyrir að ég flokki sorp og drösli því í endurvinnsluna en sem virðist mestallt vera flutt til útlanda til endurvinnslu með tilheyrandi mengun og flutningskostnaði, þrátt fyrir að ég versli í Góða hirðinum og reyni að velja íslenskar og umhverfismerktar vörur og þrátt fyrir að ég hafi áhyggjur af hækkandi hitastigi í heiminum sem rekja má til gróðurhúsalofttegunda hef ég þá skoðun að íslenskur almenningur eigi ekki að þurfa að skilgreina sig sérstaklega sem umhverfisverndarsinna heldur einfaldlega vera það. Það má ekki vera erfitt að vera umhverfisverndarsinni, maður á ekki að þurfa að fórna sér eða gerast píslarvottur, það á að vera hluti af daglegu lífi.

Við stjórnvölinn á Íslandi situr nú rauðgræn ríkisstjórn. Í stjórnarsáttmálanum segir, með leyfi forseta:

„Umhverfisvernd sem hefur sjálfbæra þróun samfélags og efnahags að leiðarljósi er sá grunnur sem ný atvinnu- og auðlindastefna stjórnarinnar byggir á. Þannig eru tekin mikilvæg skref í átt til hins nýja græna hagkerfis sem skilar jöfnum vexti, og tryggir að ekki sé gengið á höfuðstól auðlindanna.“

Því hef ég beðið spennt eftir tillögum frá ríkisstjórninni um hvernig ætti að tryggja þetta græna hagkerfi sem aðildarríkjafundur Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna skilgreindi árið 2000 á Balí, með leyfi forseta, „sem kerfi efnahagslegra ákvarðana sem tengjast framleiðslu, dreifingu og notkun á vöru og þjónustu sem leiðir af sér til langs tíma bætt lífskjör fyrir fólk án þess að auka líkur á að framtíðarkynslóðir þurfi að takast á við stórar umhverfisáhættur eða minni vistfræðileg gæði“.

Forstjóri Umhverfisstofnunar sagði þegar hún hélt erindi núna á aðalfundi stofnunarinnar að undir þetta féllu svokölluð græn störf, vistvæn innkaup ríkis og sveitarfélaga, græn nýsköpun, að fólk væri hvatt til að kaupa umhverfisvænt, að skattstefna stjórnvalda endurspeglaði grænar áherslur miðað við nytjagreiðslu- eða mengunarbótareglur, birting upplýsinga um umhverfishagtölur, betri nýting auðlinda, endurnýting og endurnotkun.

Peningar vilja svo skipta líka máli, jafnvel í umhverfismálum. Það svið umhverfismála sem Íslendingar hafa náð mestum árangri á er í notkun endurnýjanlegrar orku. Ég tel óhætt að fullyrða að umhverfissjónarmið hafi haft lítið með uppbyggingu virkjana að gera heldur snerist þetta um að spara pening, þá sérstaklega erlendan gjaldeyri, og tryggja orku til iðnaðar. Hið opinbera hefur margar leiðir til að hvetja landsmenn til að lifa sínu daglega lífi á sem umhverfisvænastan og sjálfbærastan máta. Árlega kaupir ríkið vörur og þjónustu fyrir um 100 milljarða kr. Ríkið hefur sett sér þau skilyrði að árið 2012 innihaldi a.m.k. 80% útboða umhverfisskilyrði. Í eigendastefnu ríkisins fyrir banka er minnst á vistvæn innkaup sem eitt af markmiðum fjármálastofnana í þeirra eigu og í samgönguáætlun er talað um uppbyggingu hjólreiðastíga.

En getum við ekki gert meira? Af hverju setjum við ekki markmið um að fjármálastofnanir í ríkiseigu leggi áherslu á að fjármagna græna hagkerfið? Af hverju fá kaupendur að umhverfisvænum bílum ekki lægri vexti á bílalánum sínum hjá ríkisbankanum? Og af hverju eiga ekki 100% allra útboða að innihalda umhverfisskilyrði? Af hverju krefjumst við þess ekki að sjávarútvegurinn dragi úr losun gróðurhúsalofttegunda og af hverju erum við ekki þegar búin að fá tillögur inn í þingið um að breyta skattkerfinu til hagsbóta fyrir umhverfisvænar samgöngur?

Því spyr ég hvernig ríkisstjórnin hyggist forgangsraða í umhverfismálum. Hvernig hyggst umhverfisráðuneytið móta og framkvæma umhverfisstefnu í samstarfi við önnur ráðuneyti næstu ár þannig að Íslendingar lifi sínu daglega lífi frá vöggu til grafar á sem umhverfisvænastan og sjálfbærastan máta, hvort sem litið er til vistvænna, efnahagslegra eða félagslegra þátta, þá sérstaklega í samstarfi við atvinnuvegaráðuneytin um græn störf, fjármálaráðuneytið um græna stjórnsýslu og hagstjórnun og samgönguráðuneytið um grænar samgöngur?

Það á ekki að vera erfitt að vera umhverfisvænn (Forseti hringir.) og það hlýtur að vera hlutverk stjórnvalda að tryggja að svo sé ekki.