138. löggjafarþing — 119. fundur,  7. maí 2010.

forgangsmál ríkisstjórnarinnar í umhverfismálum.

[13:42]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir að taka upp þetta mikilvæga mál og er henni sammála í öllum meginatriðum, kannski fyrst og fremst því að við eigum auðvitað umfram allt að vera umhverfissinnar í því hvernig við lifum og rækjum okkar daglegu störf. Þetta snýst ekki bara um að segja, heldur að gera. Þetta snýst líka um það að stjórnvöld gefi okkur skilyrði og umhverfi til þess að haga okkur á umhverfisvænan hátt eins og hún nefndi hér ágætlega í ræðu sinni.

Varðandi almennt um stefnu stjórnvalda í sjálfbærri þróun og umhverfismálum er til ágætisplagg sem heitir Velferð til framtíðar og er að öllu leyti samstarfsverkefni þeirra ráðuneyta sem um málið fjalla. Utan um það er haldið af umhverfisráðuneytinu en að því koma líka allir þeir fulltrúar sem sitja umhverfisþing sem er í raun og veru stórkostlegur vettvangur allra þeirra sem láta sig umhverfismál varða og geta þar komið á virkan hátt að stefnumótun í umhverfismálum til framtíðar.

Ég er sammála þingmanninum um að þó að málaflokkurinn hafi lengst af verið úti á jaðrinum — fólk þurfti þá að skilgreina sig sem náttúru- eða umhverfisverndarsinna — er þetta slíkt meginmál inn í komandi öld að það verður ekkert hjá því litið að það hlýtur að vera miðlægt í allri stefnumótun og ekki bara að því er varðar umhverfis- og náttúruverndarmál, heldur líka efnahagsmál og þróun samfélagsins að öllu leyti. Það er einmitt kjarninn og kjölfestan í hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar að ekki sé bara um að ræða efnahagsleg markmið heldur líka umhverfisleg og samfélagsleg.

Við erum ekki komin nógu langt í þessari sýn en ég vona og vænti þess að ég geti átt hv. þingmann að í því að styrkja þessa umræðu í fleiri stjórnmálaflokkum og í pólitískri umræðu almennt, þ.e. mikilvægi þess að við horfum ekki bara á þessa hefðbundnu mælikvarða heilbrigðs hagkerfis. Við höfum haft tilhneigingu til þess að nota þessa gömlu mælikvarða sem eru þjóðarframleiðsla og hagvöxtur en horfum kannski fram hjá því að bilið fer vaxandi milli ríkra og fátækra í samfélaginu eins og við sáum til að mynda gerast hér í aðdraganda hrunsins án þess að það yrði til þess að menn sæju þar rautt ljós. Sú jafnvægishugsun og sátt er auðvitað það sem öllu máli skiptir.

Þingmaðurinn spyr um útfærslur sem eru lengri umræða en svo að við getum klárað hana í stuttri utandagskrárumræðu. Við erum að láta vinna aðgerðaáætlun varðandi losunarmarkmiðin og það er kannski stærsta og mikilvægasta verkefnið í þessum efnum. Það er rétt, eins og þingmaðurinn tekur fram, að orka til húshitunar, raforkuframleiðslu og iðnaðar o.s.frv. stafar af orkukostum sem alla jafna eru ekki losunarvaldar. En samgöngur eru sóknarfæri okkar fyrst og fremst, þ.e. hvernig við nýtum jarðefnaeldsneyti í þágu samgangna og ekki bara það heldur líka sú staðreynd að Íslendingar eru afar miklir einkabílistar og sérstaklega við sem búum á höfuðborgarsvæðinu. Við eigum raunar met í því að eiga stóra bíla sem menga mikið og það er eitt af þeim heimsmetum sem ég held að við vildum gjarnan losna við. Þá er auðvitað mikilvægt að þær ákvarðanir sem fram undan eru á hverju einasta heimili á næstu 10–15 árum að því er varðar kaup á nýju ökutæki eða val á ferðamáta séu teknar í þágu loftslagsmarkmiðanna, að við drögum úr losun gróðurhúsalofttegunda, hvert og eitt. Ef 200.000 skynsamlegar ákvarðanir verða teknar í þágu loftslagsmarkmiðanna getum við dregið umtalsvert úr losun og staðið meðal fremstu þjóða í heiminum að því er það varðar að koma til móts við þau markmið sem við höfum sett okkur sem eru 30%.

Gríðarlega mörg verkefni eru á borði ráðuneytisins. Ég hef sett náttúruverndarmál þar í mikinn forgang, við erum að endurskoða náttúruverndarlög mjög ítarlega. Við erum að skoða lög um Breiðafjörð, endurskoða verklag og vinnuferli í sambandi við náttúruverndaráætlun. Við erum að innleiða Árósasamninginn, náum að klára frumvarp um það núna í sumar. Það eru mjög mörg verkefni sem varða sérstaklega stöðu náttúru og umhverfis í íslenskri löggjöf sem hefur verið verulega veik staða árum saman og ég vænti þess að þingmaðurinn sé sammála mér um að það þurfi að styrkja vegna þess að til að geta talað máli umhverfis og náttúru þurfum við að eiga löggjöf (Forseti hringir.) sem sómir málaflokknum.