138. löggjafarþing — 119. fundur,  7. maí 2010.

forgangsmál ríkisstjórnarinnar í umhverfismálum.

[13:47]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það er fín lína á milli nýtingar náttúruauðlinda og verndunar náttúru og ég tel að okkur Íslendingum hafi tekist mjög vel upp í þeim efnum. Við höfum m.a. sýnt það í verki og verið í forustu þar sem við höfum verndað yfir 20% af landinu, ósnortnum svæðum í formi þjóðgarða, þannig að við höfum sýnt mikla ábyrgð þegar kemur að verndun náttúrunnar.

Það sem mér er ofarlega í huga við þessa umræðu eru þær öfgar sem gjarnan einkenna hana og þá sérstaklega vil ég meina að það sé af hálfu þeirra sem kenna sig við náttúruvernd. Það er mjög hættulegt ef öfgar ráða ferð en ekki skynsemi. Öfgarnar birtast hjá náttúruverndarsinnum og m.a. hæstv. umhverfisráðherra í því að hún er almennt á móti frekari virkjunum. Hún er á móti frekari orkufrekum iðnaði. Hún er væntanlega á móti hvalveiðum, og á hvaða forsendum getur fólk verið á móti hvalveiðum og kennt það við náttúruvernd þegar vitað er og viðurkennt að hvalastofnarnir sem um ræðir eru í engri útrýmingarhættu? Þetta hefur ekkert með það að gera, þetta eru afurðir sem eru nýttar að fullu til manneldis.

Það eru þessir þættir, virðulegi forseti, sem ég stoppa svolítið við og ég harma í raun að skuli ráða allt of miklu í þeirri umræðu sem fer fram um náttúruvernd og umhverfismál hjá okkur og reyndar víða um heim. Það er engu landi mikilvægara en Íslandi að nýta náttúruauðlindir sínar af skynsemi. Það snýst um atvinnuuppbyggingu og hvernig við ætlum að lifa í þessu landi til framtíðar. Engin þjóð hefur efni á að nýta ekki auðlindir sínar og það að horfa til einhvers annars en að ætla að nýta hér fallvötnin og háhitann til að efla atvinnuuppbyggingu, verðmætasköpun og hagvöxt í samfélaginu er bara eins og að horfa með blinda auganu á málið.

Það verður að breyta ýmsu í þessum þáttum, við verðum að breyta hér þeirri umgjörð sem við störfum eftir. (Forseti hringir.) Við verðum að greiða því leið að geta nýtt náttúruauðlindirnar af skynsemi.