139. löggjafarþing — 119. fundur,  5. maí 2011.

heildarendurskoðun á Stjórnarráði Íslands.

675. mál
[16:56]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held og reyndar fullyrði að hv. þingmaður er ekki að túlka rétt þetta nefndarálit á sínum tíma þegar ráðuneytisbreytingar voru gerðar, að með því að atvinnuvegaráðuneyti var ekki samþykkt þá sé hægt að túlka það að ekki sé meiri hluti fyrir þessu máli. Þetta er auðvitað alrangt. Ég bið bara hv. þingmann að lesa sér til í þessu nefndaráliti þar sem segir, með leyfi forseta, ég ætla að fá að lesa það:

„Meiri hlutinn leggur áherslu á að áfram verði unnið að undirbúningi og samráði vegna atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis og umhverfis- og auðlindaráðuneytis, þó ekki sé lögð til afgreiðsla á þeim hluta málsins nú, þannig að allar fyrirhugaðar ráðuneytabreytingar nái fram að ganga eigi síðar en áformað var samkvæmt frumvarpinu.“

Þarna var því lögð áhersla á það að farið yrði í samráð eins og hér kemur fram, en lögð áhersla á að sú ráðuneytisbreyting mundi samt engu að síður ná fram að ganga. Við erum reyndar komin fram yfir þann tíma sem meiri hluti allsherjarnefndar lagði til að það frumvarp kæmi hingað inn og yrði að lögum. Þannig að við erum eftir á. Ég biðst bara velvirðingar á því að hafa ekki komið fram með atvinnuvegaráðuneyti fyrr í samræmi við vilja og ósk meiri hluta allsherjarnefndar sem fram kom í þessu áliti.

Að halda því fram að ekki hafi farið fram samráð í þessu máli, þá bið ég nú hv. þingmann að lesa það hvernig farið var í samráðsferli með þetta mál innan stjórnkerfisins. Það voru viðtöl við 30 stjórnendur í Stjórnarráðinu, fyrrverandi ráðherra o.s.frv., sem vel ættu að þekkja til, ýmsa sérfræðinga og fræðimenn, ráðuneytisstjóra í stjórnsýslunni o.s.frv. Það var lagt fram í skýrsluformi í ríkisstjórn þannig að ráðherrar höfðu tækifæri í þónokkurn tíma til að fara yfir skýrsluna sem þetta frumvarp var grundvallað (Forseti hringir.) á. Það er því fjarstæða að halda því fram að þetta hafi ekki fengið gott samráð þetta frumvarp.