139. löggjafarþing — 119. fundur,  5. maí 2011.

heildarendurskoðun á Stjórnarráði Íslands.

675. mál
[18:08]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, þetta er hárrétt hjá hv. þingmanni með gagnsæið. Ég upplifði þetta með nákvæmlega sama hætti og hv. þingmaður þegar ég rakst á þessa setningu um efnahagsprógrammið í ályktunardrögunum. Ég minntist þess ekki að hafa heyrt umræður um eitthvert sérstakt efnahagsprógramm.

Svo kom í ljós, eins og hv. þingmaður rakti, að verið var að vísa til plaggs sem unnið var á vegum efnahags- og viðskiptaráðuneytisins í janúar — reyndar kallað skýrsla þar, en lítið fór fyrir kynningu á því. Mér skilst að send hafi verið út ein fréttatilkynning en ekki var mikið vægi í því, þetta fór með öðrum orðum mikið til fram hjá fólki og ekki mikið gert til að vekja athygli á því að um væri að ræða einhver tímamót í Evrópusambandsumsókninni.

Varðandi þetta er (Forseti hringir.) ég sammála hv. þingmanni um að ekki er líklegt að einhver misskilningur sé í þessu. Það er einhver hugsun, það er tenging (Forseti hringir.) fyrir hendi eins og þessi gögn sýna.