140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

staða evrunnar og áhrif evruvandans á þróun Evrópusamstarfsins.

[13:49]
Horfa

Baldvin Jónsson (Hr):

Virðulegi forseti. Það má öllum ljóst vera að það er erfið staða í fjármálaheiminum í dag. Það á ekki aðeins við um Evrópu heldur heiminn allan. Það varð bankahrun og þó að það hafi vissulega orðið hlutfallslega stærra á Íslandi en annars staðar vegna margra ólíkra orsaka og heimatilbúins vanda er ljóst að vandi fjármálakerfisins er alþjóðlegur. Staðan sem er uppi í Evrópu snýst því í raun ekki um evruna sem slíka, heldur miklu fremur um það að fjármálakerfið hrundi og vandinn sem við það skapaðist er enn að mestu óleystur. Bankakerfið sem er afar brogað, meingallað í raun, er enn við lýði og aðeins er búið að setja á það örfáa plástra til skyndilausnar sem nú blæðir með fram, því að lausnin er enn að því er virðist sú sama, þ.e. að berjast við að endurreisa meingallað kerfi, að almannavæða skuldir og einkavæða gróða áfram. Þessi vandi í Evrópu vofir hins vegar yfir óháð gjaldmiðlum að því er virðist, hann vofir yfir vegna vangetu til þess að horfast í augu við raunvandann, þ.e. meingallað banka- og fjármálakerfi sem byggir á skuldum fremur en eignum.

Íslendingar geta ekki búið við langvarandi gjaldeyrishöft. Við þurfum að skapa hér hið allra fyrsta stöðugleika og heilbrigt samkeppnisumhverfi. Ég tel afar litlar líkur á því að umhverfi langvarandi stöðugleika og heilbrigðrar opinnar samkeppni muni nokkurn tímann skapast hér heima á meðan við rekum áfram sveiflukennda örmynt. Við verðum að leita nýrra lausna og upptaka evrunnar virðist skynsamlegur kostur, bæði með tilliti til viðskipta- og menningartengsla við nágrannaríki okkar. Hún er þó á sama tíma augljóslega ekki lausnin við núverandi stöðu hér á landi þar sem ljóst er að það er ekki innan fárra ára sem okkur tekst að uppfylla Maastricht-skilyrðin.

Ég hvet þingheim til þess að einhenda sér mun fremur í það að reyna að uppfylla þau og skapa stöðugleika á Íslandi. — Horfum heim.