140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

fjögurra ára samgönguáætlun 2011--2014.

392. mál
[14:27]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir framsögu hans um nefndarálit minni hlutans. Margt athyglivert kom fram í ræðu þingmannsins og mig langar að beina nokkrum spurningum til hans.

Í fyrsta lagi er hv. þingmaður með tillögu um að auka fé til viðhaldsverkefna og vísar í það að þessu hafi ekki verið sinnt sem skyldi undanfarin ár. Hann sagði að ef ekki yrði brugðist við mundi umtalsvert tjón hljótast af. Ég tek undir sjónarmið hv. þingmanns en spyr: Telur hv. þingmaður að þeir fjármunir sem hér eru lagðir til séu nægjanlegir til að forða því tjóni sem fyrirséð er að verði ef ekki verður ráðist í viðhald þeirra mannvirkja sem við þegar höfum eytt umtalsverðum fjármunum skattgreiðenda í að byggja upp?

Telur hv. þingmaður nægilega áherslu lagða á umferðaröryggi í áætluninni sjálfri? Það er talað um það, en er farið eftir því? Byggja tillögurnar á því að auka umferðaröryggi eða er um að ræða hefðbundna áætlun sem stjórnast hugsanlega mest af því hvaða þingmenn toga mest inn í sitt kjördæmi?

Mig langar að hrósa hv. þingmanni fyrir tillöguna um Hornafjarðarbrú og staðfesti það sem hv. þingmaður segir, sú brú er fullkomlega til skammar fyrir vegakerfið. Eins og hv. þingmaður segir er það eins og að keyra inn í Tívolí að fara yfir þessa brú og ég tel einfaldlega fyrir löngu kominn tíma til að ráðast í þetta mannvirki.

Síðan langar mig að spyrja hv. þingmann hvort hann hafi lagt einhver drög að því hvernig eigi að fjármagna þær viðbætur sem hann leggur til í breytingartillögum sínum.