143. löggjafarþing — 119. fundur,  16. maí 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[20:49]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Alla jafnan eru kannski ekki stór pólitísk álitamál á ferð í fyrirsögnum lagafrumvarpa, en þó er þannig hér vegna þess að fyrirsögnin er ósköp einfaldlega misvísandi um innihald frumvarpsins. Hún gefur það í skyn að einhver tiltekin afmörkuð leiðrétting eigi að eiga sér stað á verðtryggðum fasteignaveðlánum, eins og það taki til þeirra allra í heild sinni, en svo er ekki. Það sem hér er á ferðinni ætti að orða sem niðurfærslu höfuðstóls verðtryggðra fasteignalána tiltekinna heimila, þau munu ekki fá hana öll, fyrir opinbert skattfé. Það lýsir nákvæmlega því sem hér á að gera. Ég held að það hljóti að vera eðlilegt að lög heiti réttu nafni þannig að mér finnst það útlátalítið fyrir meiri hlutann, þótt hann hafi ekki fallist hér á aðrar efnislegar breytingar á frumvarpinu, að brjóta odd af oflæti sínu og leyfa þessum lögum að heita réttu nafni.