143. löggjafarþing — 119. fundur,  16. maí 2014.

framhaldsskólar.

380. mál
[21:43]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Hér er um að ræða frumvarp sem kom afar seint inn í þingið og þess vegna er verið að henda fjórum greinum út. Ástæðan fyrir því að ég kem hér upp er sú að ég vil vekja athygli á því að þetta kom allt of seint inn. Í öðru lagi er hér enn einu sinni verið að framlengja ákvæði varðandi efnisgjöld í starfsnámi og gjald í kvöldskóla í fjarnámi, gjöld sem átti að afnema samkvæmt lögum um framhaldsskóla frá árinu 2008.

Nú er það þannig að hvorugur þessi liður er fjármagnaður í fjárlögum fyrir árið 2014 og til að tryggja að skólarnir geti rekið sig með eðlilegum hætti í haust er óhjákvæmilegt að styðja þetta. Ég tel að það væri eðlilegt að fella þetta út í samræmi við lögin frá 2008, en tekið er fram í nefndarálitinu að farið verði í heildarskoðun á gjaldtökunni, því að ef menn hafa meinað eitthvað með því að bæta stöðu starfsnáms þarf að taka út efnisgjaldið þar.

Með tilliti til þess að tryggja þarf fjárhagsafkomu skólanna í haust mun ég styðja þetta að þessu sinni.