143. löggjafarþing — 119. fundur,  16. maí 2014.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 113/2013 um breytingu á II. viðauka við EES-samninginn.

227. mál
[21:50]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Birgir Ármannsson) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti meiri hluta utanríkismálanefndar vegna afléttingar stjórnskipulegs fyrirvara á gerð Evrópusambandsins um byggingarvörur sem tekin hefur verið upp í EES-samninginn. Þetta mál hefur verið til umfjöllunar í nefndinni í vetur. Á sama tíma hefur verið til umfjöllunar í hv. umhverfis- og samgöngunefnd frumvarp sem felur í sér innleiðingu á efnisreglum þessarar gerðar.

Niðurstaða, eftir samráð milli nefndanna og samtöl við viðkomandi ráðuneyti fyrir nokkrum dögum, var á þá leið að enn væri nokkurt verk óunnið í sambandi við breytingar á því frumvarpi sem felur í sér efnisreglurnar. Varð það því niðurstaðan að það biði um sinn.

Þess má geta að eftir að hv. umhverfis- og samgöngunefnd hafði skilað af sér nefndaráliti komu athugasemdir frá Eftirlitsstofnun EFTA sem kalla á frekari skoðun af hálfu nefndarinnar. Engu að síður var það niðurstaða meiri hluta utanríkismálanefndar að rétt væri að afgreiða þingsályktunartillöguna, sem felur í sér afléttingu hins stjórnskipulega fyrirvara, í ljósi þess að nokkuð er um liðið síðan frestur rann út til að aflétta fyrirvaranum. Það hafa borist skilaboð, meðal annars frá samstarfsþjóðum okkar innan EFTA, Noregi og Liechtenstein, að aflétting stjórnskipulegs fyrirvara af okkar hálfu auðveldi þeim að innleiða reglurnar.

Ég ætla ekki að fara út í efnisatriði málsins. Hér er um að ræða breytingar á tæknilegum atriðum sem varða fyrst og fremst merkingar og upplýsingagjöf um eiginleika byggingarvara. En hv. þingmenn munu eiga þess kost að fjalla nánar um efnisatriði málsins þegar frumvarp berst inn í þingið nú næsta haust.