144. löggjafarþing — 119. fundur,  4. júní 2015.

staða láglaunahópa.

[10:14]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Jú, jú, ég held að við getum verið sammála um markmiðið og margir hér eru sammála um það markmið að það er hlutverk okkar að tryggja rétt allra til þátttöku í samfélaginu. En mig langar samt að ítreka spurningarnar sem ég setti hér fram: Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að bæturnar verði hækkaðar með beinum hætti, ekki aðeins með því að draga úr kostnaði, greiðsluþátttöku og auka aðgengi að húsnæði, heldur að sú tala sem við horfum á, grunnbótafjárhæð til lífeyrisþega, verði hækkuð?

Hitt atriðið sem ég nefndi er leiguþakið, því að þróunin sem við sjáum í Evrópu er að þrátt fyrir framboð á húsnæði er samt sem áður verið að hækka leigu. Því sjáum við núna stórborgir á borð við Berlínarborg fara þá leið að setja hreinlega þak á leigu. Ég man að hæstv. ráðherra nefndi þá leið þegar hún var hv. þingmaður og benti á reynsluna (Forseti hringir.) af henni frá Svíþjóð. Þessi umræða stendur núna yfir í Lundúnum. Er það leið (Forseti hringir.) sem hæstv. ráðherra sér fyrir sér að hægt væri að fara?