144. löggjafarþing — 119. fundur,  4. júní 2015.

staðan á vinnumarkaði.

[10:30]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Fyrst varðandi hið síðarnefnda, að fólk vilji að það sé forgangsraðað í þágu heilbrigðismála og velferðarmála almennt. Ég tel að ríkisstjórnin hafi verið að gera það. Við höfum aldrei haft hærri framlög nokkru sinni til Landspítalans, svo að dæmi sé tekið, og við höfum stóraukið framlög til velferðarmála. Við höfum meðal annars gert það með því að ganga nær bönkunum. Við höfum sett sérstaka skatta á bankakerfið og fellt slitabúin undir háa skatta til að geta gert þetta samhliða hallalausum fjárlögum.

Varðandi hitt atriðið — efnahagsráðinu er kannski fyrst og fremst ætlað að verða samráðsvettvangur þar sem menn komast sameiginlega að niðurstöðu um það svigrúm sem er til staðar. Ég sé fyrir mér gjörbreytt fyrirkomulag á störfum ríkissáttasemjara í framtíðinni, að hann hafi skýrara hlutverk, að honum sé til dæmis ætlað að fylgja þessu merki og hafi ekkert umboð til að fara út fyrir það þegar það hefur verið fundið. Við þurfum að finna lausnir á því misvægi sem er á milli réttinda á opinbera markaðnum og almenna markaðnum. (Forseti hringir.)

Eitt af því sem við ættum að stefna að í framtíðinni er að opinberi geirinn hafi einhvers konar launaþróunartryggingu. (Forseti hringir.) Það hefur verið eitt af vandamálunum sem við höfum glímt við að launaskriðið hefur fyrst og fremst verið á almenna markaðnum (Forseti hringir.) og opinberir starfsmenn hafa viljað semja sig fram fyrir launaskriðið á almenna markaðnum í hvert og eitt sinn.